TOP

UPPSKRITFT: Hollt og gómsætt eplapæ sem er auðvelt að útbúa

Holl eplapæ

Mér finnst ofsalega gott að fá heita eplapæ með ís á sunnudags-eftirmiðdögum og vegna hollari lífshátta hef ég aðlagað uppskriftina að því og baka nú sykurlausa, mjólkurlausa eplapæ.

Þessi er þó enginn eftirbátur “óhollari útgáfunnar” enda kemur sætan frá eplunum sjálfum.

Undirbúningur tekur 10 mín og bakstur 20-25 mínútur:

Fylling

 • 3-4 meðalstór epli
 • 2 msk spelti (gróft eða fínmalað, skiptir ekki)
 • 1 tsk kanill
 • smá saltklípa
 • 3 msk hlynsýrop eða önnur sæta að eigin vali
 • 1 msk appelsínusafi (má nota sítrónusafa eða eplasafa líka)
 • 2 msk kókosolía (má nota smjör eða aðra olíu)
 • 1 tsk vanilludropar

Deig

 • 1 bolli spelti (ég nota fínmalað)
 • 1 tsk vínsteinslyftiduft
 • pínu salt
 • 2 egg (Haminguegg)
 • 3 msk hlynsýrop eða önnur sæta
 • 2 msk kókosolía (má nota smjör eða aðra olíu)
 • 1 msk appelsínusafi (má nota eplasafa líka)

AÐFERÐ

1.Kjarnhreinsið og skerið eplin í oggulitla bita

2. Blandið saman þurrefnum: spelti, kanil og salti og svo vökva í aðra skál: hlynsýrop, appelsínusafa, vanilludropa og kókosolíu, blandið svo öllu saman ásamt eplabitanunum.

3. Hellið fyllingunni í kringlótt eldfast mót ( 24 sm) og dreifið henni jafnt.

4. Þá er að gera deigið, hrærið eggin vel og bætið við hlynsýropi, kókosolíu og appelsínusafa , þvínæst koma þurrefnin út í: spelti, vínsteinslyftiduft og salt. Deigið á ekki að vera þunnt, bætið spelti út í þangað til dropar af sleif í stórum klessum.

5. Dreifið deiginu yfir fyllinguna.

6. Bakið við 200° í 20-25 mín.

Berið fram volga með sykurlausum vanilluís eða vanillurjóma (sýrður rjómi, sætuefni og vanilluessens).

Verði ykkur að góðu!

 

Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.