Screen Shot 2013-05-27 at 11.56.08 Rósa Guðbjartsdóttir matgæðingur er flestum kunn eftir margra ára störf á fjölmiðlum en hún hefur jafnframt gefið út eina matreiðslubók, Eldað af lífi og sál, og þýtt og ritstýrt öðrum vinsælum matreiðslubókum.

Á föstudaginn kom svo út ný bók frá Rósu en í henni eru ótal hugmyndir og uppskriftir að góðum veitingum fyrir fjölbreytt tilefni. Allt frá barnaafmælum og kósýkvöldum yfir í útskriftarveislur og brúðkaup.

Við komum slógum á þráðinn til Rósu og fengum að forvitnast aðeins um bókina sem er öll hin veglegasta og mjög fallega sett upp.

Hvað kom til að þú ákvaðst að gefa út bók um partírétti?

“Það sem finnst mér finnst skemmtilegast í matargerðinni er að undirbúa partí, hvort sem þau eru fámenn eða fjölmenn. Mér finnst gaman að hugsa út hvaða veitingar fara vel saman og taka tillit til ólíkra þarfa gestanna sem hafa ekki allir sama smekk á mat. Á sama tíma er áskorun að halda jafnvægi í þessu og ætla sér ekki of mikið.”

“Ég skrifaði um tíma fyrir Gestgjafann og það brást ekki að þegar verið var að gefa út sérblöð fyrir veislur var leitað til mín enda hef ég sérstakan áhuga á efninu. Ég hafði tekið eftir því að fólk er vanalega í smá vandræðum þegar það kemur að því að halda boð og veislur.

Mér fannst því liggja beint við að setja í heila bók uppskriftir sem henta fyrir hin ýmsu tilefni. Hvort sem boðið er fjölmennt eða fámennt, inni eða út í garði, stundum þarf ekki nema einn gest til að það sé tilefni til að gera eitthvað öðruvísi. Matur er svo frábær þegar kemur að þessu. Um leið og maður gerir eitthvað smá extra, sker ávextina með nýjum hætti og raðar á bakka eða ber matinn öðruvísi fram þá er strax komin skemmtileg stemmning. Þetta þarf ekki að vera flókið!”

Hvernig hefur gengið með bókina frá því hún kom út?

“Viðtökurnar hafa verið æðislegar þó það séu bara örfáir dagar síðan bókin kom í búðir. Ég er líka sannfærð um að hún á eftir að nýtast fólki vel og í henni er eitthvað við allra hæfi; Bakstur, fingrafæði, ávextir, drykkir, kjötbollur, súpur, brauðréttir, allskonar útfærslur af snakki, krakkakræsingum og fleiri freistandi réttum. Ég hef verið í tvö ár að undirbúa bókina, tók til dæmis margar myndirnar síðasta sumar og svo hefur þetta verið að safnast saman í rólegheitum. Mér fannst gott að gefa mér góðan tíma til að undirbúa hana og vona að það skili sér í innihaldinu.”

Júlía litla serverar eftir kúnstarinnar reglum í barnaafmæli um sumar
Júlía litla serverar eftir kúnstarinnar reglum í barnaafmæli um sumar

Nú ritstýrðir þú bókinni Heilsuréttir fjölskyldunnar eftir Berglindi Sigmarsdóttur en hún sló rækilega í gegn í fyrra. Eru sérstakir réttir í nýju bókinni sem taka tillit til heilsuáhugafólks?

“Gaman að þú skulir spyrja að því! Í bókinni eru einmitt mjög blandaðir réttir og allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Hollustusælgæti, fjölbreyttar hugmyndir að ídýfum og sitthvað fleira. Réttir sem eru bara mjög hollir og henta vel þeim sem hugsa mikið um heilsuna.”

Hvaða partí eru uppáhalds partíin þín?

“Barnaafmæli eru uppáhalds partíin mín!” svarar Rósa án þess að hugsa sig um.

“Verandi fjögurra barna móðir held ég að ég hafi haldið svona 60-70 barnaafmæli síðustu 18 árin, svo eitthvað hefur maður nú reynt í þeim efnum. Ég reyndi að taka þetta saman um daginn og niðurstaðan var þessi tala,” segir Rósa og bætir við að sér finnist alveg sérlega gaman að halda veislur fyrir börn.

“Ég vil almennt að börnin borði sama mat og fullorðnir og held mig við það en þegar ég slæ upp veislu fyrir litla fólkið er þetta allt borið fram með aðeins öðruvísi hætti. Þá eru til dæmis hamborgararnir litlir, súkkulaðikökurnar minnkaðar og maturinn borinn fram í litlum glösum og á litlum diskum þannig að þetta er augljóslega útbúið sérstaklega fyrir þau í tilefni þess að þetta er þeirra dagur.”

Screen Shot 2013-05-27 at 11.56.58

Í lokin leyfir Rósa okkur góðfúslega að birta uppskrift úr bókinni; smáborgara og brauð.

“Ekki einungis að smáborgararnir renni ljúflega ofan í litla sem stóra munna þá vekja þeir aðdáun og eftirtekt hvar sem þeir birtast. Glæsilegir, uppstrílaðir og skreyttir á veisluborðinu gefa þeir tóninn fyrir magnað partí. Ég hef þó líka boðið upp á þá í barnaafmæli að sumri til út í garði þar sem hver og einn gesturinn útbjó sér sinn eigin borgara með því áleggi og sósu sem hentaði. Það vakti líka mikla lukku á meðal smáfólksins að fá að gera sjálft smáborgarana sína eftir eigin höfði”.

Smáborgarar

35-40 stk.

 • 800 g nautahakk
 • 2 tsk. paprikuduft
 • salt og grófmalaður pipar, að smekk
 • nokkrir dropar worchestershiresósa
 • 1 egg
 • 1 dl brauðrasp

Hitið ofninn í 200 gráður. Blandið öllu vel saman og útbúið litla borgara, svipaða að stærð og hamborgarabrauðin. Reynið að hafa þá í þynnra lagi. Raðið síðan á bökunarplötu sem klædd hefur verið bökunarpappír og bakið í 5-7 mínútur. Snúið einu sinni meðan á eldun stendur. Borgarana er líka fínt að grilla.

Veljið sósu og meðlæti að smekk, s.s. ost, tómata, kál og gúrku.

Hamborgarabrauð

35-40 brauð

 • 1 pk þurrger (11,8 g)
 • 250 ml volgt vatn
 • 1 dl grænmetisolía, t.d. repju- eða sólblómaolía
 • 1 msk. sykur
 • 1 egg
 • ½ tsk. salt
 • 350 g hveiti, meira ef þarf
 • sesamfræ

Hitið ofninn í 210 gráður. Leysið gerið upp í volgu vatninu. Hrærið olíu og sykri síðan saman við og því næst eggi og salti. Blandið síðan hveitinu útí og bætið við eftir þörfum eða þar til deigið er orðið meðfærilegt til hnoðunar. Hnoðið þá aðeins með höndunum og búið til litlar bollur (eða í þeirri stærð sem þið óskið) en athugið að deigið hefast talsvert. Raðið á ofnplötu sem þakin hefur verið bökunarpappír, penslið bollurnar með vatni og stráið sesamfræjum ofan á.

Bakið í um 15 mínútur. Látið brauðin kólna áður en þau eru skorin í tvennt.