Að vera góð eða góður í rúminu? Hvað er það? Er hægt að vera góður í einhverju eins og kynlífi? Er til fólk sem öllum finnst gaman að sofa hjá eða passar fólk kannski bara misjafnlega saman?

Casanova eru nafn sem flest allir kannast við. Fæstir vita hinsvegar að Casanova var frímúrari sem fann upp lottóið, galdramaður og skáld. Nafn hans fór þó fyrst og fremst á spjöld mannkynssögunnar vegna þess að hann var svo góður í að tæla til sín konur (og því höfum við jú meiri áhuga á en lottó). Hann lifir í hugum okkar sem mikill elskhugi en hvort hann var góður rúminu það vitum við ekkert um.

Aðferðirnar sem hann notaði til að lokka til sín konur teljast enn ákaflega góðar og gildar -enda breytist fólk, í grundvallaratriðum, lítið sem ekkert þó að ár og aldir líði.

Öflugasta kynfærið er á milli eyrnanna

Það sem Casanova gerði til að fá konur með sér í kynlíf var að tala við þær. Hann hændi þær að sér með því að slá þeim gullhamra og telja þeim trú um að þær, akkúrat á því andartaki, væru það fallegasta sem gengi á jörðinni. Ef það gekk ekki þá hafði hann alltaf einhver önnur ráð uppi í erminni því það voru nokkur hundruð, ef ekki þúsund konur sem maðurinn hafði átt að fleka.
Þetta segir okkur að aðal kynfæri manneskjunnar sé ekki eins og margir halda á milli fótanna, heldur er það á milli eyrnanna og það sem kemur okkur síðan til er það sem við sjáum og heyrum – og þó að það sé munur á því hvað virkar á hvern og einn, þá er það alltaf þetta sem heldur þegar á hólminn er komið.

Persónuleikinn er það sem okkur finnst sexý

Við höfum öll séð hvernig menn sem eru kannski ekkert ótrúlega “sætir” hafa lag á því að ná sér í flott kvenfólk og það sama má segja um kvenfólkið. Þær þurfa ekkert að vera vaxnar eins og Barbí til að ná sér í glæsilega menn og stelpur sem eru vaxnar eins og Barbí komast ekki langt ef það er það eina sem þær hafa að gefa. Þess vegna verður góður elskhugi ekki endilega góður vegna þess hversu vel hann “performerar” í rúminu eða hversu mikið hann sé búinn að lyfta eða halda sig við Atkins megrunina, heldur er það persónuleikinn og hæfni hans til að gefa af sér (hvort sem það eru falskheit eða raunverulegt) sem fær hjörtu til að slá, limi til að rísa og rassa til að dilla sér.

Tengingar og tilþrif

Ungur maður í Reykjavík hafði orð á því við Belluna að þegar stelpur væru ótrúlega mikið að reyna að standa sig í bólförunum, þá missti hann áhugann. Asinn væri of mikill.

Manneskjan væri kannski ósköp yndæl í alla staði, sæt og allt það, en þegar í rúmið væri komið þá tæki við eitthvað sirkús atriði sem hann næði alls ekki að fylgja eftir. Tilþrifin eftir því með glennum, stellingaskiptingum, sogtækni og stunum. Þegar þetta gerðist þá langaði hann mest að biðja hana um að hætta bara. Koma með sér inn í stofu og horfa á Simpsons þátt og slaka svolítið á. Opna einn bjór. Vera ekki með þennan hasar.

Þetta er einmitt málið. Við viljum ekki einhvern tilbúinn hasar sem bara annar aðilinn er að taka þátt í. Fólk vill vera saman í kynlífinu og tengjast í huganum en ekki bara með kynfærunum. Það viljum við örugglega öll innst inni. Leika leikinn saman en ekki í sitthvoru lagi þó að við séum líkamlega inni í hvort öðru.

Margir kannast við það að sofa hjá manneskju en ná ekkert að tengjast henni í leiðinni. Vera kannski bara inni í höfðinu á sér að hugsa um það sem er að gerast í herberginu. Sjá aðstæðurnar líkt og það væri lítill karl sitjandi ofan á kollinum og hugsa:

“Já, núna er hann að snúa sér, best að ég snúi mér líka… Ætti ég að fá hann til að lyfta rassinum aðeins? Ætli ég fái það nokkuð? Ætli ég fái það of snemma? Hvernig ætli honum finnist þetta? Ætli hann taki eftir appelsínuhúðinni? Hann er með eins rakstur og Lóa. Þetta er nú ekkert sérstök lykt…”

Að vera með tilþrif í kynlífi er álíka undarlegt og að vera með tilþrif í uppvaski, eða vera tilþrifaríkur í hugleiðslu. Tilþrif eiga ekki allstaðar við. Tilfinning er miklu frekar það sem við eigum að reyna að gramsa eftir í þessum aðstæðum.

Stemning sem minnir á leikmenn á fótboltavelli er örugglega ekki það sem við erum að falast eftir þegar við förum upp í rúm með manneskju sem okkur er hlýtt til, eða langar kannski til að gera eitthvað meira með. Okkur langar til að ná saman og gleyma okkur þar til við náum svo góðu flæði að við sveiflumst í taktföstum og samrýmdum mjaðmahnykkjum eins og glaðir höfrungar á góðum degi nálægt fengsælum útkjálka á Atlantshafi. Okkur langar ekkert til að vera að hugsa um það hvernig þessi sé í samanburði við fyrrverandi eða hvað það sé langt þar til hinn aðilinn fái´ða eða hvort nágrannarnir heyri það sem er að gerast. Að sama skapi nennum við ekki að reyna að fylgja manneskju eftir sem er eins og tilþrifaríkur fimleikahoppari í flikk flakki og heljarstökkum í bólinu. Svitadropa á enni og alvarlegt blik í auga sem segir “Ég kann þetta, ég veit alveg hvað ég er að gera, ég er nefninlega svo rosalegur í rúminu”.

Taktu persónuleikann með þér í rúmið

Draumaástandið er samt sem áður ekkert sjálfgefið. Það getur tekið tíma fyrir fólk að læra að treysta hvort öðru svo vel að það geti gleymt sér þegar það fer saman upp í rúm. Liðið eins og það sé í einingu við hvort annað; að það skipti ekki máli hvað sé gert svo lengi sem þeim finnist það gott; að það sé ekki nauðsynlegt að skilja persónuleikann eftir um leið og farið er í bólið eða fara í eitthvað hlutverk sem er í raun ekki “maður sjálfur”.

Þetta gera nefninlega margir. Fara í hlutverk í huganum. Líður eins og það séu einhver önnur samskiptalögmál í gangi um leið og kynlífið hefst. Þá megi ekki lengur segja brandara eða tjá sig um það sem er að gerast. Hann fer kannski ekki inn eða er eitthvað að brölta við það, en í stað þess að segja beint út: Þú ert ekki að hitta rétt, þá er þagað og samviskusamlega beðið þar til að nær tökum á þessu. Hún er að hossast þannig á tippinu að það er allt skakkt og að missa blóðflæðið, en í stað þess að segja: Heyrðu elskan, þú ert eitthvað að beygla hann Jónas minn, þá þegir hann bara og bíður þar til hún breytir til eða reynir að mjaka sér í einhverja aðra stellingu. Persónuleikinn má ekki vera með í kynlífinu. Þú þarft að fara í hlutverk til að þetta gangi…

Nálægt þýðir ekki að sambandið sé leiðinlegt

Sumir halda að til þess að það sé gaman þá verði maður að taka hlutverkin í heilan hring, fara í einhverja búninga og læti. Rjúka bara alla leið út úr sjálfum sér og fara á fullt í leikina. Það er gaman svo lengi sem fólk kann að gera hitt líka. Kann að tengjast og verða eitt og gleyma sér þannig að þessi eftirsóknarverða sameining geti átt sér stað. Það þarf bara að gefa því tíma og passa sig að gefast ekki upp.

Sá sami og kvartaði undan “performerandi” kvenfólki sagði líka að mistök sem margir gerðu væri að halda að sambandið væri orðið þreytt um leið og kynlífið væri komið á þetta stig. Það væri alger misskilningur því um leið og traustið væri komið inn í myndina þá væri fjörið rétt að byrja. Þá væri hægt að fara á fullu út í leiki sem væru leiknir af innlifun og þá væri hægt að segja allt sem manni langaði til að segja án þess að hafa áhyggjur af viðbrögðum hins aðilans. Þá væri hægt að vera villidýr eða kanína eða kisa eða hvað sem er án þess að þurfa eitthvað að vera að pæla neitt mikið í því.

Hvað tekur þá langann tíma að ná þessu?

Það getur verið misjafnt og stundum getur það tekið langann tíma. Jafnvel nokkur ár ef því er að skipta. Það fer eftir eðli fólks, bakgrunni og sambandinu sjálfu. Það fer líka eftir því hvað fólk er tilbúið til að reyna og hversu mikið það þorir að sýna af sjálfu sér í rúminu jafnt sem utan þess. Vera það sjálft eins og skáldið sagði. Taka sénsinn á því að vera ekki hafnað þegar maður segir hvaða þarfir maður hefur. Ef svo illa færi að það ætti sér stað þá er sambandið kannski ekki það sem maður hélt? Um leið og fólk nær þessu þá er það gott í rúminu. Gott fyrir hvort annað.

Vertu þú sjálf/ur

Er þá ekki hægt að vera góð/ur í rúminu? — Það er örugglega sumt sem er betra en annað og sumt sem er verra. Það eru til konur sem kunna betur að bregðast við karlmönnum en aðrar og það sama má segja um karlmenn. Sumir kunna einfaldlega betur til verka, en það er alls ekki algilt að það sem virkar á eina manneskju geti virkað nákvæmlega eins á þá næstu.

Að vera ráðandi gæti komið einni konu ansi mikið til á meðan það virkaði ógnandi á aðra. Þetta er allt saman spurning um tilraunastarfsemi og tjáningu, en ef hvorugt fær pláss í sambandinu þá er næsta víst að samlífið verði fljótlega leiðinlegt. Sumt er þó garanterað til að virka ekki. Drumbar sem virðast ekki kunna að hreyfa sig eru lélegir í rúminu og fólk sem er fóbískt á líkamann sinn eða mótaðilans er ekki líklegt til að geta gefið mikla ánægju af sér. Öll hræðsla á illa heima í kynlífi og því er um að gera að koma henni í burtu í hvaða mynd sem hún kann að birtast. Það sama má segja um asann. Það má öllu ofgera og kappsemi í rúminu sem birtist sem einskonar eróbikk æfingar og sprang á rúmdýnunni er ekki eitthvað sem margir myndu endast lengi í. Nema þá ef vera skyldu tveir aðilar sem geta ekki látið sér detta neitt betra í hug.

Láttu það flæða

It´s not the size of the ship, it´s the motion of the ocean, segir máltækið sem útleggst einhvernveginn þannig að það sé ekki stærð skipsins sem skipti máli heldur hreyfing hafsins, öldur vitundarinnar og sameining andans sem knýr seglin í sambandinu. Því er lokaboðskapur þessarar greinar: Slökum svolítið á og reynum að nálgast hvort annað með hugum og hjörtum en ekki aðferðafræði og eigingjarnri útrás. Hún endist ekki vel og skipið okkar verður jú að vera sterkt og fjalir þess vel smurðar ef við eigum að ná að kanna heiminn saman.

En ef þú ert hinsvegar bara að leita að smá fjöri, taktu þá persónuleikann þinn með þér í leikinn og vertu dugleg/ur að tjá þig með orðum jafnt og gjörðum. Þannig áttu í það minnsta möguleika á því að verða “betri” í rúminu.