henry rollinsÉg var að horfa á Henry Rollins um daginn með einn af „spoken word“ flutningunum sínum. Eitt af því sem hann var að tala um var hvað honum gengi illa að tala við konur og hann segði alltaf akkúrat vitlausa hluti (þau ykkar sem ekki hafa kynnt sér Henry Rollins, ég hvet ykkur til að gera það!).

Ég að vísu trúi manninum mjög takmarkað þar sem mér finnst hann alveg svakalega heillandi en það er allt önnur saga…á meðan ég hlustaði á hann segja þetta áttaði ég mig á því að ég á við svipað vandamál að stríða (við eigum svo gasalega margt sameiginlegt við Henry!) en bara gagnvart strákum.

Þó mér sé svakalega illa við að alhæfa þá á ég mjög auðvelt með því að halda því fram að ég sé líklega einn versti “hössler” í heimi.

Ég áttaði mig fyrst á því að ég ætti ekki neitt svakalega auðvelt með samskipti við stráka fyrir næstum því 10 árum síðan þegar strákur sem ég hafði verið lengi skotinn í (og var nýhættur með kærustunni sinni) kom að tala við mig á einhverju djamminu.

Til að gera langa sögu stutta þá var ég svo stressuð að það yrði einhver vandræðaleg þögn að ég fór að tala við hann um fyrrverandi kærustuna hans að fyrra bragði og það endaði með því að hann fór að finna hana og þau fóru saman heim!

Auðvitað voða gaman fyrir þau en svolítið minna gaman fyrir mig!

pjatt.is

Ferill minn í viðreynslu, og almennum samskiptum við hitt kynið hefur ekki verið neitt glæsilegri eftir þetta. Vinkonur mínar eru farnar að hafa svo miklar áhyggjur af þessari “fötlun” minni að þegar ég sá strák sem ég hef lengi verið skotin í en þekki ekki neitt á Ellefunni fyrir einhverjum mánuðum síðan endaði það með því að vinkona mín fór að strjúka á honum upphandlegginn á bak við bakið á mér í einhverri von um að hann myndi halda að það væri ég sem væri að strjúka honum.

Við skulum alveg láta það liggja á milli hluta af hverju hún hélt að þessar strokur myndu kveikja áhuga hans á mér en ekki gat hún farið og talað við hann og þóst vera ég…til að gera langa sögu stutta þá virkaði þessi viðreynsla allavega ekki hjá okkur.

Annað sem ég geri sem hvetur stráka einhverra hluta vegna ekki til að hrífast af mér er að neita þeim um að bjóða af því ég get sko alveg keypt fyrir mig sjálf!

Að gera grín að þeim… eitthvað sem ég geri mikið þegar ég er stressuð, að tala um stjórnmál eða heimsmálin… einhvernvegin lendi ég líka alltaf í því að tala um eitthvað sem er alveg svakalega lítið kynæsandi eins og staðgöngumæðrun eða umskurður. Svo á ég það líka til að detta í þann pakka að hjálpa þeim að hössla aðrar stelpur…sem ég er greinilega góð í því það endar í öllum tilvikum á því að ég fer ein heim.

Á þessu ljósaperumómenti mínu ákvað ég að staðan væri samt ekkert svo slæm ef maður myndi enda eins og Henry Rollins, einhleyp og hafa tíma til að ferðast um allan heim án þess að þurfa að ræða það við nokkurn mann. Það að vera einhleyp getur nefnilega verið svolítið mikið frábært þegar maður hugsar út í það!