hjolafaerni

Í dag hefst barnamenningarhátíð með pompi og prakt. Hún mun standa frá 23. – 28. apríl og mikið verður um að vera fyrir yngri-borgara þessa daga.

Meðal annars má nefna fjölbreytta dagskrá á vegum Listasafns Reykjavíkur vítt og breitt um borgina og á sjálfu safninu en við fullorðna fólkið fáum frítt inn í fylgd með börnum á bæði Kjarvalsstaði og Ásmundarsafn meðan á hátíðinni stendur. Það er þó ekki aðeins í safninu sem hlutirnir gerast því angar listarinnar teygja sig alla leið upp eftir Ártúni og aftur til baka.

FERÐAFLÆKJA Á FLAKKI
MJÓDD, MIÐVIKUDAG 24. APRÍL OG FÖSTUDAG 26. APRÍL

Grunn- og leikskólabörnum í Reykjavík er boðið að koma og taka þátt í leiðsögn og listsmiðju í Mjódd í Breiðholti.

Farandsýning Listasafns Reykjavíkur verður staðsett í göngugötunni og taka börnin þátt í stuttri leiðsögn um sýninguna og listsmiðju að leiðsögninni lokinni. Unnið verður með endurnýttan efnivið og kannaðir verða snertifletir myndlistar og sjálfbærni. Þetta ætti öllum að þykja skemmtilegt.

„MAÐUR MÁLAR BARA EINS OG MANNI SÝNIST“ – OKKAR SÆBORG
KJARVALSSTAÐIR, 24. APRÍL – 3. MAÍ

Hér gefur að líta sýningu sem sýnir rannsókn og uppgötvun leikskólabarna í Sæborg byggða á heimsóknum í listasöfn. Sköpunarafl barnsins og tjáning í gegnum list birtist í dularfullum ljónum, steindauðum beinagrindum og fleira. Unnið í samvinnu við myndlistarmanninn Daða Guðbjörnsson og Listasafn Reykjavíkur.

Sýningin opnar á morgun þanan 24. apríl kl. 15.00 og stendur til 3. maí. Eitthvað sem allt áhugafólk um þroska og sköpunargáfur lítilla barna ættu að gefa gaum.

KJARVAL OG GULLMÁVURINN Á FERÐ OG FLUGI
BÓKASAFN SELTJARNARNESS, ÁRBÆJARSAFN, KJARVALSSTAÐIR
Ragnar Ísleifur Bragason

Flökkusýningin Kjarval og Gullmávurinn er einskonar ferðalag listmálara sem ferðast á milli staða þar sem boðið verður upp á lítinn leikþátt í við verk Jóhannesar S. Kjarvals.

Kjarval var einn af frumherjum íslenskrar myndlistar á 20. öld og varð þjóðsagnapersóna í lifanda lífi, bæði fyrir málverkin sín, hátterni og hnyttin tilsvör.Hann sagði meðal annars:

 „Listina á ekki að taka of alvarlega, til þess er hún alltof alvarleg.“

Sýningin fjallar á skemmtilegan og ferskan hátt um listamanninn í lifandi samræðu. Leikþátturinn tekur um 30 mín. þar sem rætt verður um lífið og listina og í kjölfarið geta börn og fullorðnir skoðað sýninguna.

Huginn Þór Arason myndlistamaður er hugmyndasmiður sýningarinnar en leikþátturinn er unnin í samstarfi við Ragnar Ísleif Bragason leikara.

Ferðaáætlun:

23. apríl kl. 11.00 Bókasafn Seltjarnarness- Eiðistorg (búið)
24. apríl kl. 11.00 Árbæjarsafn
25. apríl kl. 14.00 Listasafn Reykjavíkur – Kjarvalsstaðir

Hjólaratleikur fjölskyldunnar – Styttur Bæjarins
Daganna 23.-28. apríl, kl. 12.00 – 18.00
Harpa  og Ásmundarsafn

Síðast en ekki síst ber að nefna hjólaratleik fjölskyldunnar en það er nú eitthvað sem allir ættu að hafa gaman af.

Listasafn Reykjavíkur í samvinnu við Dr. Bæk og Hörpu býður upp á hjólaratleik um norður strandlengjuna. Leikurinn hefst við Hörpuna og líkur í höggmyndagarði Ásmundar Sveinssonar við Sigtún. Þetta er tilvalinn leikur fyrir alla fjölskylduna þar sem hjólað verður á milli nokkurra útilistaverka bæjarins.

Leikurinn hefst í Hörpunni og endar í Ásmundarsafni.
Þátttökuspjöld fást í afgreiðslu Hörpu.

Við vonumst til að sem flestir lesenda okkar taki þátt í Barnamenningarhátíðinni með sínum krökkum enda frábært tækifæri til að tengja saman fróðleik og skemmtun fyrir bæði börn og fjölskyldur þeirra.

Athugið að ekkert kostar að fara á viðburði sem tengjast barnamenningarhátíð svo lengi sem fullorðnir eru í fylgd með börnum.