Nýlega kom út bókin LÁG KOLVETNA LÍFSSTÍLLINN eftir eftir Gunnar Má Sigfússon sem hefur verið einn vinsælasti líkamsræktarþjálfari og heilsuráðgjafi landsins um árabil.

Gunnar hefur hér tekið saman allar helstu upplýsingarnar um lág kolvetna lífsstílinn sem hefur farið eins og eldur um sinu um veröldina en á upptök í Svíþjóð.

Í stuttu máli byggist mataræðið á lágu kolvetna innihaldi og hærra hlutfalli fitu en það hefur reynst mjög árangursríkt við þyngdarstjórnun. Auk þess hefur fólk sem tileinkar sér þennan lífsstíl öðlast almennt betri heilsu.

PJATTRÓFA 10 KÍLÓUM LÉTTARI

Bókin er snilldar samantekt á þessum jákvæða, heilbrigða lífsstíl og gefur fjölda uppskrifta að girnilegum réttum sem auðvelda leiðina að heilbrigðara lífi.

21 dags matseðillinn í bókinni er sérsniðinn að forskrift LKL og getur undirrituð vottað að hún er búin að léttast um 10 kíló á þessu mataræði á tæpum þremur mánuðum. Um kíló á viku sem þykir góður árangur.

Í bókinni er afar hentugur kolvetnalisti sem nær yfir alla helstu kolvetnaflokkana og LKL innkaupalisti sem er nauðsynlegt að hafa við höndina þegar valið er ofan í matarkörfuna.

Að auki er þar að finna góðar reglur við matarinnkaup en ein af þeim er að kaupa aldrei fitulausa eða fituskertar vörur sem eiga að innihalda fitu. Fitan er vinur þinn á LKL mataræðinu!

BRAGÐGÓÐUR OG METTANDI MATUR

Á LKL mataræðinu þarf ekki að telja hitaeiningar eða vigta matinn. Miðað er við 3 máltíðir á dag og millimál – ef svengd lætur á sér kræla. Maturinn er bæði bragðgóður og mettandi og hann er auðveldur í matreiðslu. Í bókinni eru uppskriftir fyrir 21 dag og aðrar til að nota sjálfstætt. Meðal annars er þar að finna uppskriftir að brauði, sósum og eftirrétti.

LYKILATRIÐIÐ Í LKL MATARÆÐINU

Takmörkun kolvetnainntöku er lykilatriðið í LKL mataræðinu og fita verður aðalorkugjafinn. Okkur hefur síðustu áratugina verið kennt að sneiða hjá fitu og fituskert mataræði hefur tröllriðið matarmarkaðinum. En hverju hefur það skilað okkur? Offitufaraldri sem byggir á margfaldri neyslu á kolvetnum.

Þegar  mataræðinu er haldið prótein- og fituríku, hækkar HDL (góða) kólesterólið. Þegar þú borðar lágmarks kolvetni brennir líkaminn meira magni af mettaðri fitu og því meira sem þú borðar af mettaðri fitu, því minna langar þig í kolvetni.

Eða eins og segir í bókinni:

,,Kaloría er ekki bara kaloría. Kolvetni eru orkugjafi alveg eins og fita. Öfugt við fitu og prótein hafa kolvetni veruleg áhrif á blóðsykurinn. Réttara sagt; hafa viss kolvetni veruleg áhrif á blóðsykurinn. Þetta er eiginlega mergurinn málsins. Neysla á vissum kolvetnum eykur framleiðslu líkamans á hormóninu insúlíni sem hefur bein áhrif á það hvort líkaminn geti nýtt fituforða þinn sem orku, sem er auðvitað aðalmálið ef þú vilt léttast.‘‘

Ritstjóri bókarinnar er Rósa Guðbjartsdóttir og útgefandi er Bókafélagið.