lasagna2Það er fátt betra en vel lagað Lasagna og algjörlega tilvalið að útbúa í kvöld!

Þessi uppskrift hefur fylgt mér í nokkur ár en hana fékk ég hjá ítalskri húsmóður sem leggur mikið upp úr því að hafa réttina sína bragðgóða. Rétturinn er í sérstöku uppáhaldi hjá fjölskyldunni minni enda ótrúlega góður.

Lasagna fyrir 5-6 manns

INNIHALD

 • 500 gr Nautahakk
 • Olífuolía
 • 1 dós af tómötum (ég nota frá Sollu)
 • 1 dós af Tómat passata (maukaðir tómatar) frá Sollu
 • 3 msk af tómat paste
 • 5-6 laufblöð Basilikum  (smátt skorið)
 • 3 stk hvítlauksrif (smátt skorið)
 • 1 tsk rautt chili (smátt skorið)
 • 1 stk laukur (smátt skorinn)
 • Salt og pipar
 • Lasagne pasta
 • Parmesan ostur
 • 2pk rifinn ostur Mozzarella
 • Hálf dós sýrður rjómi 10%

Ég byrja á því að skera allt grænmetið niður og steiki það á léttum hita með nautahakkinu ásamt smá olífuolíu. Svo er gott að setja tómatana, tómatmaukið og tómatpaste útí. Muna að salta og pipra vel. Krydda með chili.

Gott er að sjóða lasagna plöturnar í smá stund upp úr söltuðu vatni. Notið hálfan af þeim tíma sem er uppgefinn á pakkanum. (óþarfi ef ferskar lasagna plötur eru notaðar). Kælið plöturnar með smá köldu vatni svo þær festist ekki saman.

Þegar kjötsósan og lasagna plöturnar eru tilbúnar þá byrjarðu að raða þessu í eldfast mót. Byrjar á kjötsósunni, setur svo lasagna plöturnar yfir og rifinn ost. Kjötsósuna aftur, lasagna plötur og smá sýrðan rjóma og parmesan ost. Svona gerirðu koll af kolli.

Gott er að setja smá parmesanost á milli og eins aðeins yfir rifna ostinn efst.

Eldið í ofni í 25-30 mínútur við 180 gráður

Berið fram með fersku salati og njótið vel!