Guðbjörg veit hvað hún syngurEnn dvelur hugur okkar við áramótaheitin og heilsuátakið og margar höfum við náð ágætis árangri það sem af er janúar.

En betur má ef duga skal… það þarf að halda þessu við. Guðbjörg Finnsdóttir, íþróttakennari hjá G-Fit heilsurækt í Garðabæ leyfði okkur að leita í sinn góða viskubrunn og deilir hér með lesendum Pjattsins heilræðum og þremur girnilegum uppskriftum.

Gott markmið er að mæta í alla tíma og sleppa sykri og sætindum í mataræðinu, borða reglulega hollan mat, helst 6 máltíðir á dag og passa skammtastærðir. Hvílast vel og drekka nóg vatn ! Svo er gott að halda matardagbók sem sýnir okkur hvað við þurfum að bæta og hjálpar okkur enn betur við markmiðin.

MÁLTÍÐIR

Græni matseðillinn er tveggja vikna matseðill sem miðast við ca 1500 hitaeiningar á dag. Hann er eins og nafnið segir mest úr grænmeti auk fisks og kjúklings. Það er gott að styðjast við hann til að sjá skammtastærðir og fá hugmyndir.

Morgunmatur er nauðsynlegur. Sem dæmi er létt ab-mjólk með bran flakes eða öðru trefjaríku, hafragraut eða spínatbomba.

Hádegismaturinn er yfirleitt tekin á hlaupum og þá þarf skipulagið að vera gott og fyrirfram planað svo við lendum ekki í því að taka skyndiákvarðanir sem geta lent óhollustu megin.

Millimálið þarf að vera saðsamt svo við náum að halda út með blóðsykur í góðu jafnvægi fram að kvöldmat. Gott getur verið að taka tvö millimál, þ.e. kl. 15:00 og 17:00. Hnetur og fræ, ósaltað er gott mál en þá er það skammtastærðin sem skiptir mestu. Við miðum við ca 40 grömm í einu sem er sirka ein lúka en 40 gr skammtur af hnetum gefur okkur ca 220 hitaeiningar.

Kvöldmaturinn er máltíð fjölskyldunnar og við ætlum ekki að vera á sérfæði. Við getum eldað hollan kvöldmat fyrir alla en gætt þess að okkar skammtastærð sé í góðu hófi.

Kvöldsnarlið í algjöru lágmarki og góð regla er að borða ekkert eftir kl. 20:00 og fara snemma að sofa.

Í raun er ekki hægt að tala um nýjar og nýjar aðferðir til að léttast eða ná góðum árangri eins og margir eru alltaf að leita að. Þetta er ósköp einfalt, “galdurinn” er mikið frekar að fara eftir ráðunum.

Hér koma nokkrar vel valdar uppskriftir sem ég mæli eindregið með að þið prófið.

HAMINGJUSAMUR HAFRAGRAUTUR

1 dl tröllahafrar
2 dl vatn
Soðið í potti
Hellt yfir í skál með
1 tsk kanill, 1 tsk hunang (má sl), kúfuð matskeið krækiber eða 1 msk önnur ber, 1 tsk hveitiklíð, 1 msk vanilluprótein (má sl) Hrært saman.

HRÖKKBRAUÐ/KEX

1¾ dl spelti
½ dl gróft haframjöl
½ dl graskersfræ
½ dl hörfræ
½ dl sesamfræ
½ dl sólblómafræ
½-¾ teskeið fínt sjávarsalt
1 dl vatn
2 matskeiðar (30 ml) góð olía

Blandið öllu hráefninu saman í skál og hrærið með sleif eða sleikju þar til þið hafið linan massa. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og setjið deigið á pappírinn, setjið því næst bökunarpappír yfir deigið og fletjið það út með kökukefli (þið getið svo lagað endana með fingrunum ef þið þurfið). Skerið deigið í þá stærð sem þið viljið hafa hrökkbrauðið (ég nota pizzaskera og svo rétt aðeins sting ég í hverja sneið með gaffli). Bakið í blástursofni við 200°C í 15-20 mínútur, fer eftir því hversu dökkt og stökkt þið viljið hafa hrökkbrauðið (ég baka það í 20 mínútur).

Geymið hrökkbrauðið í loftþéttu boxi svo það verði ekki seigt.

Screen Shot 2013-01-16 at 14.57.49GRÆNA BOMBAN

3 cm engiferbútur
1 bolli mangó eða pera
½ glas af hollum safa t.d. Berry Company
½ glas vatn
1 tsk kakó nibbs
1 tsk macaduft
2 lúkur spínat eða grænkál

Klaki

Allt í blandara og um að gera breyta til og leyfa hugmyndafluginu að ráða, aðaluppistaðan er spínat og engifer.

Þú getur sótt græna matseðilinn HÉR