Við í félagi geitaostsunnenda erum alltaf að verða fleiri og fleiri enda er geitaostur hreinlega unaðslegt fyrirbæri sem gjarna mætti vera í einni eða annari útgáfu á öllum matseðlum borgarinnar. Það er að segja í hinum fullkomna heimi.

Ég varð því afar kát þegar ég rakst á þessa dásamlegu partý-uppskrift að baguette brauði með geitaosti og hunangsristuðum gulrótum. Hreint elegant að bjóða vinkonunum upp á ííískalt hvítvín og geitaost með hunangsristuðum gulrótum og timijan í lekkeru trúnóboði á aðventunni.

Létt og gott í magann og bragðið alveg “tú dæ for” eins og ein vinkona mín myndi orða það.

INNIHALD:

 • 1 baguette
 • 2 msk ólífuolía
 • 250 gr geitaostur á stofuhita (mjúkur)
 • 2 msk hunang
 • 2 msk ferskt timjan (saxað)
 • 450 gr rifnar gulrætur
 • 1 msk smjör
 • salt og pipar

AÐFERÐ

 1. Skerðu baguette brauðið í sneiðar og hitaðu msk af ólífuolíu á pönnu yfir meðal hita. Ristaðu brauðið í olíunni í fimm mín á hvorri hlið þar til allt er orðið fallega brúnt. Taktu af hitanum og kældu niður.
 2. Settu msk af ólífuolíu á pönnuna og bættu út í gulrótum, salti og pipar. Steiktu þar til þær eru byrjaðar að brúnast, í sirka 5-8 mín.
 3. Lækkaðu niður í miðlungs hita aftur og bættu við smjöri, matskeið af hunangi og matskeið af timjan. Hrærðu í af og til þar til grænmetið er komið með fallegan gljáa. Sirka 3-5 mín. Taktu af hitanum.
 4. Blandaðu rest af hunangi og timjan við geitaostinn og hrærðu saman.
 5. Smyrðu brauðið með geitaostinum og settu gulræturnar ofan á. Toppaðu með örlitlu hunangi. Berðu fram og njóttu!