Það er ótrúlega einfalt að vippa upp ljúffengum eftirrétti með engri fyrirhöfn.

Þessi hefur í mörg ár verið uppáhalds hjá minni fjölskyldu en það eru fáir eftirréttir sem eru í senn jafn ljúffengir og auðveldir í framkvæmd enda eru súkkulaði, rjómi og jarðarber hálf guðleg blanda af hráefnum.

Þú þarft…

  • Öskju af ferskum og góðum jarðarberjum
  • Gott súkkulaði 70%
  • T.d. eitt Snickers, 4 fílakaramellur eða annað gott
  • Hrískúlur
  • Pela af rjóma
  • Fallegar skálar, bolla eða glös.

Þrífðu jarðarberin og skerðu þetta græna í burtu. Ef berin eru stór skaltu skera þau í helminga. Lítil jarðarber eru samt yfirleitt alltaf betri á bragðið.

Settu örlítinn rjóma í lítinn pott og bræddu súkkulaðið og sælgætið í rjómanum á lágum hita meðan þú hrærir varlega í. Þeyttu restina af rjómanum.

Láttu nokkrar Hrískúlur í botninn á hverri skál, þeyttan rjóma yfir, því næst jarðarberin og toppaðu svo með heitu súkkulaðisósunni!

Þetta slær alltaf rækilega í gegn enda hreint unaðslegur eftirréttur sem tekur ekki nema 5 mínútur að reiða fram. Mmmm*