Við könnumst margar við það að ‘festast’ í rútínu þegar kemur að förðun og eiga erfitt með að prófa eitthvað nýtt.

Sumar vita líka hreinlega ekki hvað fer þeim best og þora jafnvel ekki að prófa nýjar vörur eða aðra liti en vanalega.

En það eru alltaf ráð! Nýlega kom á markaðinn frábær kennslubók í förðun sem heitir því einfalda nafni Förðunarhandbókin en í bókinni finnur hver og ein kona nákvæmar upplýsingar um hvaða förðun fer henni best.

Þá er tekið mið af aldri, litarhafti og að sjálfsögðu útliti. Segja má að bókin höfði sérstaklega til kvenna sem eru 30 ára og eldri en flestar fyrirsætur bókarinnar eru komnar yfir þrítugt.

EINFALDAR OG GÓÐAR LEIÐBEININGAR

Í bókinni er hægt að fræðast um allt sem tengist förðun en kaflarnir í bókinni heita:

Umhirða húðarinnar, Förðun, Að greina litarhaft þitt, Mismunandi útlit, Förðun í samræmi við aldur, Fegraðu andlitið, Lokahönd á verkið og atriðisorðaskrá.

Í bókinni er líka ítarlegur inngangur þar sem meðferð pensla, þrif, geymslutími snyrtivara og fleira er útskýrt. Til dæmis er útskýrt að gúmmí á augnhárabrettara ætti að skipta um á tveggja mánaða fresti. Ekki vissum við það!

Förðunarhandbókin tekur mið af stefnum og straumum nútímans en er jafnframt klassísk. ‘Venjulegar’ konur eru fyrirsætur bókarinnar en horft er til þekktra kvenna á borð við Kim Catrall, Kate Middleton og Meryl Streep við útskýringar.

Pjattrófurnar mæla heilshugar með þessari flottu og einföldu bók sem tekur mið af allskonar konum á öllum aldri. Kíktu á hana, hvort sem er fyrir sjálfa þig eða gjöf til vinkonu. Hún mun verða þér gagnleg.