Eins og landinn hefur eflaust orðið var við hefur bollakökubakstur yfirtekið mörg eldhús undanfarna mánuði og leika konur jafnt sem karlar sér að því að baka, skreyta og borða þessar dásamlegu kökur sem yfirleitt eru vægast sagt bjútífúll og bragðgóðar.

En í öllu þessu bollakökuæði hefur múffubakstur örlítið gleymst, en múffur eru oft miklu betri en bollakökur og margfallt einfaldari í gerð, ásamt því að þær er fljótlegra að undirbúa og baka.

Í fyrra gerði ég færsluna Að vera eða ekki vera – Bollakaka eða múffa ef þú vilt rifja upp muninn, en það er nefnilega töluverður munur þó svo að múffur og bollakökur eiga það sameiginlegt að vera bakaðar í riffluðum formum.

Forlagið gaf nýverið út bókina Múffur í öll mál eftir Nönnu Rögnvaldsdóttur og prófaði ég áðan að taka tvær uppskriftir og baka upp úr bókinni. Kallinn fékk að velja eina uppskrift og ég fékk að velja eina. Mér fannst of mikið að gera heila uppskrift þannig að ég helmingaði hana og fékk ég níu bollakökur úr sitthvorri uppskriftinni eða átján kökur í allt.

Kallinn valdi bollaköku með pylsum meðan ég valdi bláberjamúffur, drengurinn gat auðveldlega hjálpað mér með baksturinn (4 ára) og tók ótrúlega stuttan tíma að hræra í bæði degin. Það sem var einnig gott var að ég þurfti ekki neinar græjur, heldur var hnífur, skál og sleif í raun eina sem ég þurfti, svo bara skella deiginu í formin og baka í 18-20 mín.

Manninum mínum fannst pylsumúffan sjúklega góð og tekur hann fjórar með sér í vinnuna á morgun. Honum fannst hann vera að borða eggjaköku með pylsum, nema einhvernvegin miklu betra og drengurinn át sína köku með bestu lyst en hann er yfirleitt ekki hrifinn af bollakökum eða múffum. Þar sem ég er ekki mikil pylsumanneskja bjóst ég ekki við miklu en bragðið kom mér á óvart og var ég ótrúlega hrifin af áferðinni á múffunni!

Bláberjamúffan var reyndar eitthvað sem ég var miklu hrifnari af *mmmmmm* sé alveg fyrir mér að skella í hálfa uppskrift um helgar og hafa með morgunkaffinu en þessi er ekki of sæt sem gerir það að verkum að hún er fullkomin sem kaffimeðlæti eftir að hafa sofið aðeins lengur.

Það er alveg á hreinu að ég á eftir að gera fleiri múffur upp úr bókinni, því ég og kallinn vorum eins og páfagaukar yfir henni áðan segjandi til skiptis *mmm þessi!” og *mmmm þessi!* já ohh *mmm þessi*

Hér má sjá sýnishorn út bókinni