Ryðfrítt stál er mikil prýði í eldhúsinu hvort sem er á ísskápnum eða uppþvottavélinni en það er ekki eins fallegt þegar það er allt kámugt og í fingraförum.

Það kemur kannski á óvart en olía, hvort sem er Johnsons Baby Oil eða ólífuolía, dugar vel til að koma fallegum glans á heimilistæki úr stáli. Þú hellir dropa af olíunni í mjúkan klút og berð á stálið. Um leið og fingraför og annað kám er horfið skaltu nota pappírsklút/tissjú til að búa til glans.

Þú getur einnig tekið þetta skrefi lengra og notað hreint borðedik aftur yfir olíuna áður en þú pússar upp. Þá ætti yfirborðið að vera spegilslétt og fagurt.

Þetta er frábær aðferð fyrir fólk sem kýs að fara umhverfisvænu leiðina þar sem engin skaðleg efni er að finna í ólífuolíu. Að auki eiga hana flestir til í eldhúsinu svo þetta kallar ekki á aukin fjárútlát fyrir heimilið.