Um helgar er tilvalið að láta hugmyndaflugið ráða þegar kemur að því að útbúa fallegan morgunmat.

Það þarf ekki endilega að þýða að þú kastir hollustunni út um gluggann, hafragrautnum í tunnuna og takir upp kókópuffsið, heldur bara nostra aðeins við morgunmatinn og bera hann fallega fram í rólegheitum um leið og þú tekur einn andardrátt í einu.

Ég geri mér oft eggjabrauð í morgunmat, hitaeiningafjöldinn hentar mér, ég fæ prótein, kolvetni, yfirleitt ávöxt með og þessi skammtur dugar mér þar til ég fæ mér hádegismat seinna um daginn.

Um helgina langaði mig í fegurð, þannig að ég skar þykkari sneið en ég er vön af brauðinu , setti tvö egg út í, steiki á vægum hita á pönnu upp úr 1 tks. kókosolíu og örlitlu af vanilludropum. Dreifði svo nýtýndum bláberjum á disk, eggjabrauðið ofan á, notaði restina af egginu til að búa til rós, náði mér í heimatilbúið bláberjasaft (án sykurs) og notaði sem sósu, dreyfði svo ööööörlitlum flórsykri ofan á til að fá smá lit og rjúkandi kaffibolli við hliðina á.

*ahhhh*, það tók mig smá tíma bara að dást að þessu, svo naut ég hvers bita fyrir sig…. Ljómandi góð byrjun á deginum….