Hvort sem okkur líkar það betur eða verr þá eru fordómar enn til staðar á mörgum sviðum samfélagsins.

Þó okkur hafi tekist að berjast meðal annars gegn fordómum gagnvart samkynhneigðum og litarhafti ásamt því að réttindabarátta kvenna er sífellt að skila betri árangri þá eru enn fordómar ríkjandi gagnvart allskonar þjóðfélagshópum og stéttum.

Hvað vitum við hver ástæðan er fyrir því að manneskjan á næsta borði talar hranalega?

Við höfum öll rétt á að hafa okkar skoðanir á allskonar hlutum, hvort okkur þykir rós fallegri en lilja, erum með eða á móti virkjunum, trúum á Jesú Krist eða Buddah en svona á seinni árum hefur mér fundist orðatiltækið “aðgát skal höfð í nærveru sálar” megi eiga betur við þegar við lýsum tilfinningum okkar gagnvart öðru fólki.

Hvort sem það er að skipast á skoðunum eða ræða útlit annarra og á það sérstaklega við á netinu þar sem orð geta misskilist, sært og eru eins og eðli hlutarins, oft einhliða.

Mig langar að minna á að lífið er alls ekki svart og hvítt. Það væri örugglega auðveldara ef það væri þannig en lífið er bara miklu frekar allir litir heimsins og nú þegar gleðigöngunni er nýlokið og eldur Ólympíuleikanna nýslokknaður, (sem er notaður meðal annars til að kynna nýja menningu milli landa og hefðir), þá skýtur það skökku við að koma með sleggjudóma yfir fólki hvort sem þeir dómar snúast um útlit, trúarskoðanir, lífsskoðanir eða annað sem stangast á við manns eigin hugmyndir um hvað sé til fyrirmyndar.

Hvað vitum við hver ástæðan er fyrir því að manneskjan á næsta borði talar hranalega, er sorgmædd, í fínum fötum, ómáluð, ber dýra skartgripi og svo framvegis?

Það er ekki okkar (eða mitt) að dæma manneskjuna.

Hvað veit ég hver saga hennar er, hvað hún er að ganga í gegnum, hvaðan hún er að koma og hvert hún er að fara?

Mig langaði bara að minna aðeins á þetta og hvetja okkur öll til að fara með þetta hugafar inn í haustið og vera góð við hvort annað.