Allir elska dúnmjúkar og volgar amerískar pönnukökur. Hvort sem það eru amma og afi, mamma og pabbi, karlinn eða krakkarnir, þú skapar þér alltaf vinsældir um leið og ilmurinn fyllir kotið og sírópið er dregið fram.

Það besta er að þessar eru bráðhollar og allir geta notið þeirra með mjög góðri samvisku. Svo er bara spurning um smekk hvað er sett ofan á.

INNIHALD

  • 100 g spelt
  • ½ tsk vínsteinslyftiduft
  • 1 egg
  • 1 msk ólífuolía, helst lífræn
  • 3 dl mjólk eða sojamjólk

Blandið þurrefnum saman, hrærið saman eggi, ólífuolíu og mjólk í aðra skál, hellið síðan út í þurrefnin og hrærið vel.

Steikið á vel heitri pönnu í ca. 30 sek á hvorri hlið (hafið að meðalstærð, ekki íslenskri pönnukökustærð). Úr þessu fást um það bil 10 pönnukökur. Ef margir eru samankomnir í bústaðnum má margfalda uppskriftina.

Svo má alveg sleppa sér í “vitleysuna” og setja allskonar bæði út í deigið eða ofan á. T.d. kanil, bláber, banana, súkkulaði… eða jafnvel smá Nutella.

Nammmmmm…..