You know the times you impress me most
Are the times when you don’t try

Þannig hljómar textabrot úr laginu “Woman of Heart and Mind” eftir Joni Mitchell frá árinu 1972. Í augum kanadísku tónlistardívunnar var ástmaðurinn upp á sitt albesta þegar hann var ekki að reyna að ganga í augun á henni.

Þessi einfalda játning náði heilmiklum hljómgrunni á áttunda áratugnum enda var tíðarandinn mjög andsnúinn hvers kyns tilgerð og látalátum. Reyndar hafa uppgerðarlæti sjaldnast talist til prýði og fólk sem er tiltölulega eðlilegt kallar oftar fram jákvæðar tilfinningar hjá manni heldur en ekki.

Útlitið skiptir okkur hins vegar flest verulegu máli. Við reynum að koma vel fyrir og vera upp á okkar besta. Samkvæmt könnun sem var gerð fyrir bresku hótelkeðjuna Travelodge verja karlmenn að meðaltali 81 mínútu á dag í persónulega umhirðu þ.e. þrif, rakstur, húðhirðu, hársnyrtingu og fataval.

Konur eru hins vegar aðeins sneggri og ljúka þessu af á 75 mínútum.

Könnunin sýndi að morgunsturtan tæki karla 23 mínútur en konur hins vegar 22 mínútur. Karlar verja svo 18 mínútum í rakstur á morgnana en konur 14 þrátt fyrir að þær þurfi að snyrta á sér leggina, handakrikana og bíkínílínuna. Karlar eru svo um mínútu lengur en konur að hreinsa á sér húðina og bera á hana krem.

Þessi morgunverk, sem eru talsvert tímafrek ef marka má ofangreinda könnun, eru unnin í þeirri góðu trú að við lítum betur út og föllum betur í kramið heldur en ef við létum þau vera.

Í því sambandi er vert að spyrja hvort allt þetta tilstand flokkist undir tilgerð og hvort við værum hugsanlega flottari – eins og Joni fannst ástmaður sinn vera – ef við hættum að reyna?