Um daginn fór á ég í Grillskóla Garðheima og Weber, lærði ýmislegt hvað varðar grillun eins og kom fram í pistli mínum um daginn – margt nýtt og spennandi.

Eitt af því sem ég lærði var að grilla súkkulaðiköku og fékk ég leyfi frá Hinriki Carli Ellertssyni kokkinum snjalla að birta uppskriftina hérna á vefnum svo þið getið algjörlega slegið í gegn í útilegunni, ég tala ekki um að gera allt vitlaust á tjaldstæðinu um Verslunarmannahelgina en deigið er hægt að blanda áður en þú leggur af stað í ferðina í sveitasæluna.

Innihald:

250 g smjör
250 g 72% súkkulaði (ég notaði 70% súkkulaði frá Síríus)
250 g flórsykur
30 g hveiti
2 egg
4 eggjarauður
vanilludropar

Aðferð:

Bræða smjör og súkkulaði saman í potti undir vægum hita þar til blandan verður vel gljáandi.
Þeyta saman egg og sykur þar til það verður fallega hvítt og loftkennt. Þessu tvennu er blandað varlega saman, því næst er hveitinu bætt út í í smá skömmtum.

Allt sett í kjúklingastand frá Weber (fæst t.d. í Garðheimum) eða eldfast mót og bakað á meðalhita í 18-25 mínútur.

Á námskeiðinu kom fram að bökunartíminn er mjög misjafnt eftir bæði hitastiginu úti, hvernig grillið er en kakan á að vera mjúk í miðjunni þannig að súkkulaðið leki á móti manni og þegar bökunartíminn er hálfnaður er gott að snúa forminu 180 gráður á grillinu.

Ég prófaði að gera þessa köku um daginn og hún var æði! Tengdaforeldrarnir mínir eru en að tala um hana og ég er orðin uppáhaldstengdadóttirin eftir að hafa boðið þeim upp á grilluðu súkkulaðikökuna með ljúffengum ís.