Rithöfundurinn Jussi Adler-Olsen er í fremstu röð glæpasagnarithöfunda á Norðurlöndunum  og býður nú Íslendingum að njóta bókar sinnar Veiðimennirnir í þýðingu Hilmars Hilmarssonar.

Dönsk glæpasaga eins og þær gerast bestar. Höfundur hefur gaman af að kitla taugar lesenda með sadísku ívafi en segir frá gömlum skólafélögum sem eiga það sameiginlegt að þurfa að fullnægja morðfýsn sinni með reglulegu millibili.Kveikjuþráður sögu þeirra er rakinn til smávægilegs atviks sem fær þau til að ætla að hræða yngri samnemanda sinn en enda á að ganga illilega í skrokk á honum. Eftir það er ekki aftur snúið og grimmdin allsráðandi.

Við fylgjum lögreglufulltrúum Deildar Q eftir í æsispennandi aðför sem teygir sig yfir allt mannlegt litróf þegar þeir hrófla við tuttugu ára gömlu máli með það að markmiði að varpa ljósi á hneigðir félaganna.

Árið 1987 fundust illa limlest systkini í sumarbústað, barin til dauða. Efst á skrá grunaðra var hópur nemenda sem virtist eiga það sameiginlegt að vera af góðum efnum komin og í uppreisn. Samviskulaus og ögrandi.

Níu árum seinna játar einn sexmenninganna, Bjarne að nafni, á sig morðið en við upptöku málsins og nánari rannsókn kemur í ljós að hann hylmir yfir hinum fimm gegn hárri greiðslu. Í ljós kemur að ólíkt félögum sínum bjó hann ekki við efnahagsleg forréttindi heldur sótti námið með skólastyrk.

Lögreglufulltrúar Deildar Q grafa einnig upp að á meðan annar félaganna hefur látist vofveiflegum dauða hafa hinir, þeir Ditlev, Torsten og Ulrik, komið sér vel fyrir í þjóðfélaginu og  þekktir fyrir valdagræðgi og sérvisku.  Það sem lögreglan hefur ekki komist að er að Kimmie, eina konan í hópnum, veit að þeir vinirnir verða að grípa reglulega til veiða að upplifa spennu. En Kimmie virðist horfin af yfirborði jarðar.

Leikur óvættarins að bráðinni er þráðurinn í bókinni þó sá leikur virðist snúast upp í andstæðu sína er nær dregur bókarlokum. Vel skrifuð og ágætlega þýdd, heldur lesandanum rígföstum við efnið.