Staður: Tapashúsið
Verð: Í hærri kantinum
Þjónusta: Sæmileg
Umhverfi: Fallegt, huggulegt og snyrtilegt.

Tapashúsið er staðsett í miðbæ Reykjavíkur í fallegu húsi þar sem útsýni yfir hafið blasir við manni ef maður situr á neðri hæð hússins.

Matseðillinn er vel uppsettur og hægt er að kaupa meðal annars smakkmatseðla sem njóta mikilla vinsælda í Reykjavík þar sem bornir eru fram sex til átta réttir og allt borðið fer í nokkursskonar óvissuferð en Smjattrófan pantaði einmitt Tívolímáltíð Tapashússins sem er mjög vinsæl.

Réttirnir voru allir girnilegir fyrir augað en borðið fékk fyrst brauðkörfu sem borin var fram með olíu og muldum hnetum og voru hneturnar einstaklega góðar. Brauðið var örlítið þurrt, en mjög gott að blanda því saman við olíuna.

Fyrstu réttirnir sem voru bornir fram voru krabbasalat á brauði og skötuselur með döðlu og beikoni. Báðir réttir voru bragðgóðir en skötuselurinn bar af í bæði bragði og útliti, einstaklega vel settur fram.

Þriðji rétturinn sem borinn var fram var djúpsteikur humar, í hreinskilni sagt upp í nös á ketti, en ekki fannst á réttnum að maður væri að borða humar þar sem orlídeigið tók algjörlega yfir bragðið.

Fjórði rétturinn var Carpaccio og var það mjög gott. Það var borið fram með gráðostasósu, hnetum og rúsínum – bragðgott, örlítið salt og ljúffengt að finna keim af gráðostinum þar sem sósan var passlega mikil.

Fimmti rétturinn var lakasti rétturinn, túnfiskur með ólífusandi. Smjattrófan er reyndar ekkert mikið fyrir túnfisk en borðið var samt sem áður sammála um að það mætti skipta þessum rétti út fyrir eitthvað annað.

Kjúklingaleggur var sjötti rétturinn og var hann einstaklega góður. Leggurinn var reyndar mauksoðinn en bragðgóður var hann og sveppirnir sem fylgdu með réttnum skemmtilega góðir á bragðir þar sem þeir voru kraftmiklir og sterkir.

Aðalrétturinn var lambalund og því miður ekki góð. Smjattrófunni fannst sinnepsbragðið ekki passa, lundin var þurr og ólekker en Smjattrófan varð fyrir töluverðum vonbrigðum að besti rétturinn kom svona snemma í tívolíferðinni en það var klárlega skötuselurinn með beikoninu og döðlunni.

Eftirrétturinn var reyndar mjög góður – snickerskaka, ís, popp og frosið kók og heyrðust þá stunur frá borðinu þegar fyrsti bitinn var bragðaður og var allur hópurinn ánægður með þennan rétt. Eini gallinn kannski var að þjónarnir buðu okkur ekki upp á kaffi áður en rétturinn kom og var of seint að panta kaffið með réttnum þar sem ísinn hefði bráðnað á meðan beðið væri eftir uppáhelltu kaffi.

Þjónustan á staðnum var ágæt, það stuðaði örlítið hópinn að ekki var hægt að fá meira brauð á borðið þar sem þjóninn vildi meina að við gætum ekki klárað matinn okkar ef við fengum meira brauð. Smjattrófunni finnst það ekki vera í hlutverki þjóns að vera með tölu um hvort að viðskiptavinur geti klárað matinn sinn eða ekki og verð ég að segja að stemningin varð mjög skrítin eftir að hafa hlustað á þessa ræðu.

Einnig fannst Smjattrófunni frekar lélegt þegar þjóninn skipti hvítvínflöskuupphæðinni í þrennt og bætti við fimm krónum við verðið þar sem hann námundaði 1533.3 upp í 1535 kr. en Smjattrófan skilur ekki hvernig 3.3 kr. getur orðið að 5 kr. Svona smáatriði getur hefur óneitanlega haft á hrif á hvernig heildarupplifun manns er á staðnum.

Ég mæli nú samt með þessum stað, hann er huggulegur í skemmtilegu umhverfi og maturinn var yfir heildina litið mjög góður. Bið milli sumra rétta hefði samt sem áður mátt vera örlítið styttri, þjónarnir duglegri við að bjóða upp á drykki og óhreinir diskar teknir af borðinu á milli rétta en svoleiðis hluti er auðveldlega hægt að laga.