Ég er sérlega hrifin af súkkulaði, þá helst súkkulaðikökum. Það jafnast fátt við góða súkkulaðiköku og glas af ískaldri mjólk.

Þessi uppskrift er ansi góð að mínu mati, ég fékk hana hjá mömmu minni og mamma fékk hana hjá mömmu sinni svo hún hefur verið bökuð oft í minni fjölskyldu. Sérlega einföld og svakalega góð.

Mér finnst agalega fallegt að skreyta kökur, ég notaði  stút frá Wilton 2 D til þess að skreyta þessa köku. Einföld súkkulaðikaka verður mun fallegri eftir smá skreytingar.

Rósavöndur skal það vera í þetta sinn. Ég mæli með að prófið þessa uppskrift og vona að þú og þínir njótið vel.

Kv, Eva Laufey

Mömmudraumur

 

Innihald

150 gr. Sykur
150 gr. Púðursykur
125 gr. Smjör
2 egg
260 gr. Hveiti
1 tsk. Matarsódi
1 tsk. Lyftiduft
½ tsk. Salt
40 gr. Kakó
2 dl. Mjólk
Aðferð…
Vinnið vel sykur og smjör. Setjið eitt og eitt egg í einu og blandið vel saman. Blandið þurrefnum og setjið saman við ásamt mjólkinni.  Hellið í tvö jafn stór form og inn í ofn við 180°C í 20 – 22 mín.

Krem

500 gr. Flórsykur
60 gr. Kakó
1 egg
80 gr. Smjör
1 tsk. Vanilla extract (eða vanilludropar)
3-4 msk sterkt kaffi.

Bræðið smjör og blandið öllu saman þar til kremið verður orðið slétt og fínt. Smyrjið kreminu á milli og yfir kökuna.