Að elda hollan mat getur oft reynst flóknara en maður ætlar sér og oft gleymir maður grunnatriðunum í matargerð og hvað það er sem gerir matinn hollari.

Þessar atriði minna þig á hvað þú getur gert til að elda hollari mat ef þig langar að skerpa á nokkrum atriðum sem þú ert ef til vill búin að gleyma.

1. Eldaðu frá grunni

Það að velja sjálf hvaða hráefni þú notar í matinn er góð byrjun á því að elda hollari mat. Það getur verið freistandi að kaupa tilbúið brauð, pakkasúpur, frosið lasagne og fl en oftar en ekki eru allskonar aukaefni í tilbúnum mat sem eru algjörlega óþörf.

Prófaðu að elda blómkálssúpuna frá grunni, skelltu í heimabakað brauð með og bættu við fullt af kornum. Eldaðu lasagnað og veldu kotasælu í stað þess að nota ostasósu, keyptu fitulítið hakk í Kjöthöllinni og mundu að vanda alltaf valið þegar kemur að hráefnakaupum.

2. Bættu spínati í matinn þinn

Spínat þekkir þú eflaust, þetta græna sem Stjáni Blái borðar til að fá krafta sína. Það er ótrúlegt hvað fer lítið fyrir spínati í matnum og hvað er hægt að fela þetta kraftmikla og frábæra grænmeti. Taktu lúku af spínati og bættu í smoothie-inn, það er hægt að kaupa það frosið í flest öllum matvörubúðum miklu ódýrara en ferskt en spínat er  einnig sérstaklega gott út í kjötrétti og er hægt að bæta því við Lasagnað, út í spagettíréttinn og fleira.

Ekki dæma fyrirfram, prófaðu og dæmdu svo.

3. Bættu ávöxtum út í mátlíðirnar

Það er pláss fyrir meiri ávaxtaneyslu í matarræðið hjá okkur Íslendingum og góð leið að bæta við ávöxtum í matarræðið með því að borða þá einnig með matnum.

Salat verður svo miklu betra ef þú bætir út í það appelsínum, eplum, perum, kiwi og fl. Ég tala nú ekki um hversu fallegri maturinn verður af því að hafa ávexti í honum.

4. Minnkaðu saltið

Mikil saltneysla getur verið óholl fyrir heilsu okkar. Að sjálfsögðu er í lagi að borða salt í hófi, en með því að ofsalta matinn sinn þá deyfir maður raunverulega bragðið sem er í matnum. Ef þú ert búin að venja þig á að salta matinn mikið, prófaðu að draga smá saman úr saltneyslunni og vendu bragðlaukana þína á að finna hið rétta bragð af matnum.

5. Njóttu matarsins

Við fáum orku úr matnum og mín skoðun er sú að ef við njótum matarins fáum við jákvæða orku frá honum sem lætur okkur líða betur. Taktu þér tíma og raðaðu matnum fallega á diskinn þinn, reyndu að hafa sem flesta liti, rauðan, grænan, gulan og jafnvel fjólubláan. Staldraðu aðeins við áður en þú stingur upp í þig fyrsta bitanum og sjáðu hvað matur getur verið fallegur og í raun ákveðið listform.