Mig langar að byrja á því að viðurkenna að ég er ekki þekkt fyrir að vera sú meðvitaðasta þegar kemur að matarræði. Á mínum borðum er venjulegur íslenskur heimilismatur (hvað sem það nú er) og lífrænt fæði er mér framandi.

Ég er týpan sem hef ekki mikið “nennt” að pæla i svona löguðu.

En sem betur fer fór ég nú allt í einu að hugsa meira um þessa hluti. Nú tek ég lýsi og nokkrar tegundir af vítamínum á hverjum degi og já ég borða morgunmat!

Þið skiljið að hér er um lítil hænuskref í rétta átt að ræða. Til dæmis langar mig að fara að skipta út hveiti fyrir heilhveiti og bygg.

En að ég skuli hafa gengið það langt að leggjast í brauðbakstur kom sjálfri mér á óvart! Brauðbakstur er mér nefnilega jafn framandi og lífrænt fæði.

Þessi uppskrift hérna  er svo “idiot-proof” og samt svo góð að ég bara varð að deila henni með ykkur!

Hafra- og byggbrauð

4 dl byggmjöl
*1 dl graskersfræ
1 dl hörfræ
*l dl sólblómafræ
1 dl tröllahafrar eða haframjöl
1 msk vínsteinslyftiduft
1 1/2 tsk kúmen
1/2 tsk salt
2-3 msk hunang
2 1/2 dl vatn
1 msk sítrónusafi

Hitið ofninn í 180°C. Blandið þurrefnunum saman í skál ásamt hunangi, hellið vatni og sítrónusafa út í og hrærið þessu rólega saman. Setjið í smurt brauðform. Bakað við 180° í um 35-40 mínútur.

Þetta er alveg fáránlega einfalt og hollt brauð. Enginn sykur, ekkert ger, ekkert hveiti. Og svo var ég svo sniðug að ég keypti svona blandaðan fræpoka og setti bara 3 dl. af þeim út í deigið. Það gerir uppskriftina ennþá einfaldari.

Já, þetta þarf ekki að vera flókið!