Sætar kartöflur eru mjög góðar og hollar, þær eru einnig í miklu uppáhaldi hjá mér núna.

Hér kemur uppskrift af sætum kartöflufrönskum sem eru lausar við það að vera djúpsteiktar enda bakaðar í ofni.

Það sem þú þarft í þessa einföldu uppskrift er:

  • 1 stór sæt kartafla (magn fer eftir fjölda, ein stór er fyrir sirka 3 fullorðna)
  • Ólífuolía
  • Salt og pipar
  • Bökunarplata og bökunarpappír

Aðferð:

Ofn stilltur á 200° Flysjið kartöfluna, skerið hana í frönskustrimla og dreifið vel á bökunarplötuna, setjið síðan salt og pipar yfir herlegheitin og síðan ólífuolíu, þessu öllu er síðan blandað saman með höndunum og dreift aftur vel á plötuna.

Setjið plötuna inn í ofn og bakið þangað til að franskarnar fá á sig smá dökkan lit, því lengur sem þær eru inni því meira brakandi verða þær-ekki hafa þær samt of lengi inní ofninum því þá brenna þær!

Ég mæli með grískri jógúrt með grískri dressingu blandaða saman sem dýfu fyrir franskarnar.

Njóttu vel og verði þér að góðu!