Með internetinu, og öllu sem fylgir nýju tækjunum og tólunum sem hafa auðveldað og aukið samskipti okkar allra svo um munar, rekumst við æ oftar á fólk sem er á öndverðum meiði en við sjálf.

Með öllum þessum tækjum og tækninýjungum höfum við sem höfum viljað nýta þessar nýjungar þurft að temja okkur algjörlega nýjar samskiptareglur og þurft að læra á algjörlega nýja og framandi tækni.

Auðvitað tók einhver ár fyrir alla að átta sig á því hve stórt internetið er, hve opið það er og hve varanlegir hlutirnir sem maður setur þangað inn eru. En núna eftir nokkurra ára reynslutíma, þar sem maður gat upp að einhverju marki fyrirgefið byrjendamistökin á netinu, þá myndi maður ætla að fólk væri farið að átta sig á umfanginu og varanleikanum öllum saman.

Samt sem áður fyllast kommentkerfi fréttaveita, umræðuvefja og bloggsíðna af athugasemdum og útásetningum og því miður oft á tíðum niðrandi og ljótum færslum sem eiga stundum enga stoð eða heimild í raunveruleikanum. Eiga jafnvel ekkert skylt við efni þess sem athugasemdin er sett við, heldur er einungis bein árás á höfund eða viðmælanda höfundar.

Það vantar letur fyrir kaldhæðni

Sumt af þessu er án efa sett fram í kaldhæðni og það er annað sem við verðum að átta okkur á. Að þó þau sem þekkja okkur átti sig á því að við séum að tala í kaldhæðni, þá gera það ekki allir. Athugasemdir  manns geta þannig komið manni í klandur og jafnvel orðið að einhverju sem mögulegir vinnuveitendur, eða aðrir, sjá og dæma án þess að þekkja til og vita ekki að allt var ætlað í gríni. Það er nefnilega ekki ennþá, þó mikið hafi verið auglýst eftir því, komið sérstakt letur fyrir kaldhæðni. Svo er aftur hægt að deila um það hvort viðeigandi sé að grínast með vissa hluti og hvað þá fyrir allra augum.

Málfrelsi er ekki það sama og frelsi til að vera dónaleg

Það er málfrelsi á Íslandi en það þýðir ekki að við verðum að segja frá öllum skoðunum okkar opinberlega. Ásamt málfrelsinu eru líka til lög sem banna meiðyrði og þau krefjast þess af okkur að við sínum þá ábyrgð að tjá skoðanir okkar eins og siðmenntaðir einstaklingar. Skoðanir okkar allra eiga sér stað og stund og við eigum ekki að láta þeim fylgja fúkyrði og uppnefningar. Því það sé málfrelsi þá veitir það okkur ekki rétt til þess að láta öðrum líða illa eða gera lítið úr eða jafnvel leggja einstaklinga í einelti.

Málfrelsið gefur okkur ekki frelsi til að vera fordómafull og full af hatri. Það á alltaf að koma fram af virðingu við meðbræður og systur, meðal annars með því að hugsa sig tvisvar um áður en við póstum einhverju á netið.

Hættum þessu

Það er löngu kominn tími til að við netverjar leggjum þessari eyðileggjandi hegðun okkar. Þó að það séu eflaust einhverjir sem finnst þeir ekki geta setið á sér með að tala um persónu, eða jafnvel vaxtarlag annarra á eyðileggjandi hátt, þá væri best að þeir einstaklingar myndu allavega reyna að geyma þessar skoðanir sínar fyrir einkasamræður eða kaffistofuna.

Ef þeim finnst svo mikilvægt að tjá þessar skoðanir þar sem allir geta séð þær myndi það sýna meiri kjark af þeirra hálfu að mæta bara með gjallarhornið niður í bæ á einhvern fjölsóttan viðburð og básúna skoðunum sínum þar án þess að skýla sér bak við tölvuskjáinn og jafnvel nafnleynd.

Ekki það að ég sé að hvetja til þess konar gjörnings…