Ég skrapp í bíó í gær með dóttur minni sem er sjö ára, vinkonu og syni hennar á myndina Skrímsli í París.

Eins og venjan er undirbjó ég mig fyrir það að hugurinn byrjaði að reika á fyrstu mínútum myndarinnar en svo var ekki í þetta sinn. Ég var rétt búin að sleppa orðinu við vinkonu mína um hvað maður ætti bágt með að halda athyglinni við barnamyndir þegar ég gleymdi mér alveg yfir þessari.

Kannski liggur galdurinn í því að myndin er af frönskum ættum og því með svolítið öðru yfirbragði?

Sagan, sem gerist í París árið 1910, segir frá sætri söngkonu og risastórri fló sem syngur eins og engill með rödd Sean Lennon. Tveimur vinum sem reyna að bjarga flónni frá vondum lögreglustjóra og auðvitað ástinni. Svosem ekki endilega ný tíðindi enda snúast gæði svona mynda oftar um það hvernig sagan er sögð, ekki endilega söguþráðinn sjálfan.

Allt yfirbragð myndarinnar er sérlega fallegt, lögin skemmtileg og týpurnar frábærar. Sérstaklega ‘samkynhneigði’ kampavínsþjónninn Albert og aðalkvenhetjan sem sungin var af fyrrverandi hans Johnny Depp, Vanessu Paradis. Parísarborg er líka heillandi á vönduðum teikningunum – hrein, rómantísk og falleg.

Skrímsli í París hentar börnum frá fimm ára og er hin besta skemmtun fyrir mömmur og pabba líka.

[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=lvN4A6PgSW4[/youtube]