Margir foreldrar kannast við það að börnin þeirra eru komin langt á undan þeim í heimi tækninnar og er Internetið partur af þeim heimi.

Þessi fimm atriði, sem voru birt á cracked.com, eru nokkuð góð og hjálpa okkur foreldrum að kenna börnum okkar samskipti á Netinu.

1. Ekki líta út fyrir að vera algjör hálfviti þegar kemur að því að hafa samskipti við fólk í gegnum Internetið.

Það sem þú segir á Facebook getur auðveldlega verið afritað og sett á hvaða vefmiðil sem er og getur jafnvel verið í dreifingu löngu eftir að þú segir þitt síðasta á þessari jörð.

Kenndu barninu þínu að vera kurteist á Netinu, það er ótrúlegt hvað Google finnur þegar kemur að því að leita uppi fólk. Hefur þú t.d. prófað að gúggla nafnið þitt ? Eða nafn barnsins þíns ? Veistu hvaða leitarniðurstaða kemur ? Prófaðu, niðurstaðan gæti komið þér á óvart. Það skiptir máli hvað þú segir við fólk á Netinu og hvernig þú orðar það, það er þarna að eilífu.

2. Hafðu stjórn á skapi þínu og tilfinningum, ekki láta plata þig út í umræðu sem er ekki málefnanleg.

Sumt fólk fær einhversskonar fróun á því að æsa annað fólk upp tilfinningalega. Varpa sprengjum á spjallþræði, eða segja særandi hluti við það á bloggi eða t.d. Facebook.

Kenndu barninu þínu að taka ekki þátt í rifrildum á Netinu. Sá sem espir þig upp er ef til vill eingöngu að leita eftir athygli, sama hvort hún er neikvæð eða jákvæð. Ef einhver kemur með neikvæða athugsemd á spjallvef, bloggi eða hvar sem er, er besta leiðin að hunsa viðkomandi.

3. Ekki nota netleiki sem afsökun að haga þér eins og asni

Netleikir eru vinsælir meðal barna og unglinga. Einkenni netleikja er að þeir eru landamæralausir og geta spilarar verið út um allan heim. Þegar fólk spilar leiki, sama hvort það eru borðspil, ólsen ólsen eða netleikir þá er alltaf einhver sem er tapsár. Hlutverkjaleikir geta orðið mjög persónulegir, einnig á Netinu, og getur sá sem tapar, eða er drepinn orðið nokkuð tilfinningasamur.

Kenndu barninu þínu að falla ekki í þá gryfju að taka orðum mótleikarans persónulega. Það að hann sé dónalegur og segi allskonar særandi eða niðrandi hluti við þig, þýðir miklu frekar að þú eigir að standa upp og taka þér pásu frá leiknum en að falla í þá gryfju að brjóta þig niður af því að mótleikarinn þinn er sár.

4. Gerðu ráð fyrir því að allt sem þú sérð er plat

Það sem lítur út fyrir að vera ókeypis á Netinu, er það yfirleitt ekki. Svindl á Netinu er mjög algengt og ef þú færð t.d. tölvupóst frá einhverjum sem þú þekkir ekki eru miklar líkur á því að sá hinn sami er að reyna að svindla á þér eða fá eitthvað frá þér. Eyddu strax þess háttar pósti og ekki einu sinni opna hann.

Kenndu barninu þínu að smella aldrei á síður sem hafa orðið “free online gaming”, “free online casino”, “free screen saver”, “free video game hacks”, “FREE-eitthvað”, það er yfirleitt aldrei neitt ókeypis á Netinu.

5. Sýndu ábyrgð gagnvart klámi


Besta ráðið við að vera öruggur gegn klámi á Netinu er að heimsækja ekki þess háttar síður, en verum raunsæ, fullorðið fólk skoðar klám á Netinu. Ekki skoða klám í vinnunni, ekki skoða klám í skólanum, fyrirtæki og stofnanir fylgjast með netumferð og ég held að enginn vilji vera kallaður til yfirmannsins fyrir að hafa skrifað inn leitarorðið “Big boobs”, “Hot men” og lenda á óæskilegum síðum. Það má heldur ekki gleyma að klámsíður eru mjög oft sýktar af allskonar ormum eða veirum sem geta hreinlega eyðilagt tölvuna eða uppsetninguna á henni.

Kenndu barninu þínu að fara ekki inn á klámsíður. Fyrir utan að klám brenglar sýn þess á kynlífi, þá getur það verið hreinlega hættulegt fyrir netkerfið eða tölvuna að fara inn á þess háttar síður.

Berum ábyrgð þegar kemur að netnotkun barnanna okkar.