Ég er algjör nammigrís og þegar það hefur komið að því að halda sykuráti í skefjum hefur mér oftar en ekki mistekist. Og rúmlega það. En eftir að ég fór að uppgötva allskyns uppskriftir að hollu nammi þá fór að birta til. Svo er líka alltaf gott að narta í möndlur, frosin ber og ávaxtablöndur á virkum dögum 🙂

Ég fann eina uppskrift sem er rosalega girnileg og langaði að deila henni með þér:

1,5 bolli kókosmjöl
1,5 bolli cashew-hnetur
1/2 tsk salt
1/2 bolli döðlur

Allt kurlað saman í matvinnsluvél. Það er líka gott ráð að setja döðlurnar í örlítið heitt vatn áður en þær eru settar með, þá blandast þær betur við.  Deigið er steypt í form og kælt í um það bil 2-3 tíma (eða lengur). Svo er það bara tekið út úr kælinum og skorið í jafna bita! Gæti ekki verið auðveldara…

Ef þið viljið vera extra góð við ykkur þá er hægt að bræða dökkt súkkulaði yfir vatnsbaði og húða bitana og skreyta þá með kókos eða möndluflögum, mmm…

Ég mæli endilega með því að þú prófir þetta, en minni þó á að allt er gott í hófi 🙂