Ég er með ótrúlega mikla skráningaráráttu. Mér finnst gaman að skipuleggja mig, setja mér markmið og skoða hvort mér hafi tekist að ná tilsettum markmiðum eða ekki.

Oftar en ekki reyni ég að blanda áhugamálunum mínum saman við þessa skráningarmaníuna mína og í síðustu viku blandaði ég saman ljósmyndaáhuga mínum og matardagbókarskráningu, en ég hef í nokkuð mörg ár haldið bókhald af og til yfir það sem ég borða mér til skemmtunar og stuðnings.

Ég sem sagt endaði með að taka 51 matarmynd í síðustu viku en það sem mér finnst skemmtilegt við þessa skráningu er að ég tek oft eftir formum og fegurð í umhverfinu mínu sem ég myndi annars ekki pæla í hvort innihéldu listræn form eða taka t.d. eftir því að vínber getur verið ótrúlegt augnakonfekt.

Prófaðu að horfa á heiminn í gegnum myndavélina í viku, kannski sérðu eitthvað fallegt!

Myndirnar eru ekki í átröð 🙂