Ég bauð fólki í mat á gamlárskvöld aðalrétturinn var íslenskur lambahryggur með allskonar góðgæti. Ég hafði rækjukokteil í forrétt, en svona til að gera kvöldið aðeins meira spes, var ég með for-forrétt.

Mig langaði að bera for-forréttinn fram á nýstárlegan hátt og datt það snilldarráð í hug (sem ég stal frá Sjávargrillinu góða) að bera humarsúpuna fram í blómapottum.

…að sjá svipinn á kallinum þegar ég kom með þessa hugmynd, hann veinaði upp yfir sig – BLÓMAPOTTUM!

Ég æstist öll upp við þetta, fannst þetta sniðugra og sniðugra með hverri mínútunni sem leið og brunaði út í Blómaval að kaupa potta. Klukkutíma síðar voru komnir þessir fínu blómapottar inn á heimilið og kallinn var enþá með BLÓMAPOTTASVIPINN á andlitinu.

Haldiði ekki að þetta hafi ekki bara komið svona gasalega lekkert út og gestirnir héldu að þetta ætti bara að vera svona,  þeim datt ekki einu sinni í hug að þau voru að borða ljúffenga súpu úr blómapottum.