Fyrir þremur árum var mér kennt að setja kalkún í pækil fyrir jólin. Mér leist ágætlega á hugmyndina og hófust miklar pælingar hvernig ætti að koma heilum kalkún fyrir í legi.

Eftir að hafa dregið út alla potta og föt út úr eldhússkápunum var ákveðið að arka í Húsasmiðjuna og kaupa skúringafötu undir kalkúninn þar sem ílátin í eldhúsinu voru ekki nógu stór.

Heldur þú ekki að fatan hafi virkað svona ljómandi vel og síðan þá hef ég sett jóla- og páskakalkúninn í pækil með þeim tilgangi að gera hann aðeins meira djúsí og fá meira bragð í kjötið.

Hér er uppskriftin mín:

 • 250 g gróft salt
 • 100 g sykur
 • 3 msk oregano
 • 3 msk timian
 • 1 kanilstöng
 • 2 tsk pipar
 • 3 cm engiferrót
 • 1 tsk chilipipar
 • 1 dl vatn
 • 3 l eplasafi
 • 3 msk sítrónusafi

Ég helli öllum vökvanum í fötuna og hendi svo kryddinu út í. Set kalkúninn ofan í og ef mér finnst vanta meiri vökva þá set ég annaðhvort meira vatn eða eplasafa. Þannig að ef þú ert með stóra fötu og stóran kalkún þá er sniðugt að kaupa 2 l meira af eplasafa. Það er mikilvægt að vökvin nái upp fyrir kalkúninn svo hann drukni í pæklinum.

Undanfarin jól hef ég verið heppin og getað sett kalkúninn í pækilinn og geymt út á svölum og vonandi fáum við önnur þannig jól, en það sparar töluvert pláss í ísskápnum. Ég hef lesið á netinu að hægt er að hafa kalkúninn í pæklinum í tvo sólahringja, en ég hef látið duga einn, aftur á móti er nauðsynlegt að taka kalkúninn upp úr fötunni 3 tímum fyrir eldun svo hann sé búinn að ná stofuhita áður en hann er settur inn í ofninn.

Ertu búin að skoða færsluna “Að elda kalkún” og “Kalkúnafylling” ?