Það eru til hundruðir ráða um hvernig eigi að elda kalkún og eru skiptar skoðanir á því hvort eigi að setja smjördrukkið viskustykki ofan á kalkúninn, vefja hann með beikoni, hella yfir hann smjöri eða elda hann í poka.

Ég er ein af þeim sem er með heilaga aðferð hvernig á að elda kalkún og að sjálfsögðu finnst mér þetta eina rétta leiðin. Töfraorðið í kalkúnaelduninni hjá mér er SMJÖR SMJÖR SMJÖR og meira SMJÖR!

Á hverju ári fer ég út í apótek og bið um kalkúnasprautu en hluti af galdrinum er að sprauta SMJÖRINU inn í kalkúninn þannig að hann er að springa úr fitu. Flest starfsfólk í apótekum veit hvað átt er við, en kalkúnasprauta er stærsta mögulega nál sem þú getur keypt í apóteki og stærsta mögulega sprauta.

Ég tek smjörið, ósaltað (þetta græna), hendi í skál, set inn í örbylgjuofn og sýg smjörið varlega upp í sprautuna þegar smjörið er orðið bráðið. Því næst hefst gleðin og snýst hún um að sprauta kalkúninn út um allt þannig að hann verður uppblásinn og fallegur. Gott er að setja líka smjör undir skinnið, en mikilvægt er að sprauta smjörinu inn í bringurnar og lærin.

Hljómar þetta ekki vel ?

Ef þú ert að pæla í smjörmagninu, þá bara sprautarðu þar til þú getur ekki sprautað meir, en með þessari aðferð (og að setja kalkúninn í pækil) verður hann mjúkur og safaríkur, en ég ausi líka smjöri yfir hann á 20 mín fresti þann tíma sem hann er inn í ofninum.

Reyndar verð ég að nefna eitt, en kallinn hefur það hlutverk á Aðfangadag að taka sinarnar úr lærunum á kalkúninum og gerir hann það með því að skera hringinn í kringum enda lærisins, taka upp töng og draaaaaaaaga svo allar sinarnar út, eina í einu. Þetta krefst töluverðar þolinmæði og krafts, en lærin verða bara miklu miklu betri með þessari aðferð.

Ofninn er alltaf stilltur hjá mér á 150°C og er 40-45 mín á kg + 40 mín fyrir fyllingu.

Eitt svona ráð í viðbót. Settu eins og ég segi „hendurnar fyrir aftan bak“ á kalkúninum, en þá er auðveldara að taka hann upp úr steikarpottinum og hann er stöðugri á borðinu. Þegar ég segi hendurnar, þá meina ég vængina.