Þessi réttur er ekkert stútfullur af andoxunarefnum eða hollustu. En hverjum er ekki sama, hann er svo góður að ég hef staðið mig að verki að stynja næstum því dónalega yfir honum.

Hann er líka fljótlegur og einfaldur, þú þarft alls ekki að vera með mastersgráðu í eldhússtörfum til að hrista hann fram úr erminni.

Reyndar finnst mér hann betri ef hann er búinn að standa í ísskápnum í nokkra klukkutíma, eða jafnvel yfir nótt.

3 dollur af kryddblöndu ídýfu.
2 litlar dósir af ananaskurli.
1 brauð, vitanlega fransbrauð því að annað gæti verið hollara.

Nú skal blanda saman ananaskurlinu og ídýfunni og rífa svo brauðið útí.
Síðan skerð þú niður:

  • 1 vínberjaklasa.
  • 1 rauða papriku.
  • 1 græna papriku.
  • 1 camenbert ost eða höfðingja.
  • 500 gr af rækjum.

Þá er komið að því að hella smá af brauðgumsinu í stóra skál, dreifa síðan papriku, vínberjum, osti og rækjum yfir.
Þú gerir svo nokkur svona lög á meðan byrgðir endast, pínu lasagna-fílingur.

En endaðu á því að dreifa papriku, rækjum, vínberjum og osti yfir. Bara útaf því að það er fallegra.

Vessogú, njóttu fram í fingurgóma og leyfðu þér smá óhollustu. Ég get lofað þér því að þú vaknar ekki eins og flóðhestur þó að þú missir þig smá.