Það er ómissandi á jólunum á mínu heimili að drekka hátíðarkaffi og bíð ég alltaf eftir því að kaffibrennslurnar á Íslandi byrji að selja kaffið í búðunum.

Í morgun fékk ég mér í fyrsta sinn Jólakaffi Kaffitárs 2011 en í ár kemur kaffið frá búgarðinum Daterra í Brasilíu. Það sem mér finnst svo gaman við að vera fagurkeri í kaffidrykkju er, að með því að versla við sérbúðir, veit ég að hver vara á sér uppruna og spennandi sögu. Kaffitár verslar til dæmis við Daterra búgarðinn án milliliða og er hann Rainforrest Alliance vottaður sem er umhverfisvottun kaffiræktenda.

Hátíðarkaffi Kaffitárs 2011 heitir Sweet Collection og kemur nafnið til af því hvað kaffið er einstaklega sætt og ljúffengt (Það er eitthvað fyrir mig!). Einnig er það með mikla fyllingu og tærleika en hægt er að finna fyrir sætri vanillu  og smá mjúkri karamellu (*mmmm*).

Hjá Kaffitár er alltaf sett mikil vinna í leitina að frábæru kaffi í Hátíðarpakkann og þar sem kaffið er þeirra stolt en það er eflaust ástæðan fyrir því að mér þykir hátíðarkaffi Kaffitárs bera af í gæðum og bragði.

*mmmm* ég er farin að hella upp á annan bolla!