Amma gaf mér fyrir mörgum árum uppskrift að bollum sem ég nota sem grunnuppskrift í allskonar brauðgerð. Oftar en ekki blanda ég í tvöfalda uppskrift og enda svo með að gera pizzusnúða, skinkusnúða, kanilsnúða, eplafléttu, bollur og sælgerasnúða.

Mig langar til að deila uppskriftinni á Pjattinu ef þig vantar hugmynd fyrir sunnudagskaffið. -Hvernig væri að bjóða fjölskyldunni í smá kaffiboð til að halda upp á hvað lífið er dásamlegt ?

Grunnuppskrift

1/2 líter nýmjólk
1 pakki þurrger
1 tsk kardimommur
4 msk sykur
1 tsk salt
1 egg
2 – 3 msk olía
Hveiti eftir þörfum

Mjólk inn í örbylgjuna þar til hún er orðin volg
Setja ger út í og hræra vel með písk
Setja sykur og salt út í og hræra með písknum og dreyfa smá ást og umhyggju yfir degið (ALGJÖRLEGA NAUÐSYNLEGT!)
Setja svo kardimommurnar út í og olíuna ásamt egginu osso hræra….
Því næst er hveitinu blandað við, slatti í einu þar til deigið er orðið að brauðdegi.  Nota bara tilfinninguna  en ég byrja á að hnoða þetta í skálinni og svo þegar deigið er farið að haldast saman þá skelli ég því á borðið og hnoða betur (en ekki of mikið).
Deigið er á að vera smá klístrað, en þá hefast það betur (finnst mér)

Láta svo hefast í 30 mín…. 45 mín… bara taka smá kæruleysi á þetta, skella á borðið eftir hefingu og hnoða smá.

Nú kemur að valmöguleikanum…. en ég skipti yfirleitt einfaldri uppskrift í 2 hluta og geri eitthvað og tvöfaldri uppskrift skipti ég í 4 hluta (segir sig kannski sjálft).

Bollur


Bara skipta deiginu í þær stærðir sem þú vilt og gera bollur… láta hefast í kannski 10 mín, setja egg yfir og inn í ofn 200 gráðu blástur, þar til bollurnar eru orðnar fallegar á litinn (10-20 mín).

Kanilsnúðar


Fletja út, frekar ílangt en hitt.
Smyrja mjúku smjöri á deigið.
Dreyfa slatta mikið af kanil yfir
Setja svo sykur yfir
Rúlla upp og skera lengjuna niður í litla snúða.
Láta hefast í 5-10 mín, setja egg yfir og inn í ofn í 200 gr. þar til snúðarnir eru orðnir fallegir á litinn (10-20 mín)

Pizzusnúðar


Fletja út, frekar ílangt en hitt.
Smyrja með pizzasósu
Setja pepperoni sem er skorið niður yfir deigið
Setja svo rifinn ost yfir
Rúlla upp og skera lengjuna niður í litla snúða.
Láta hefast í 5-10 mín, setja egg yfir og inn í ofn, 200 gr. þar til snúðarnir eru orðnir fallegir á litinn (10-20 mín)

Skinkusnúðar


Fletja út, frekar ílangt en hitt.
Smyrja með skinkumyrju, eða beikonsmurosti
Setja saxaða skinku yfir
Setja svo rifinn ost yfir
Rúlla upp og skera lengjuna niður í litla snúða.
Láta hefast í 5-10 mín, setja egg yfir og inn í ofn, 200gr. þar til snúðarnir eru orðnir fallegir á litinn (10-20 mín)

Kanilfléttur


Fletja út, frekar ílangt en hitt.
Smyrja með mjúku smjöri
Setja slatta af kanil yfir
Setja svo sykur yfir
Raða svo eplaskífum ílangt í miðjuna á lengjunni
Skera upp í lengjuna sitthvoru megin við eplaskífurnar og flétta
Festa saman í hring.
Láta hefast í 5-10 mín, setja egg yfir.
Setja svo inn í ofn 200 gr. þar til lengjan er orðin falleg á litinn (20 mín)

Sælkerasnúðar


Fletja út, frekar ílangt en hitt.
Smyrja með mjúku smjöri
Setja kanil og sykur yfir
Saxa suðursúkkulaði og setja yfir
Rúsínur
Möndlur eða einhverjar smáskornar hnetur
Rúlla upp og skera lengjuna niður í litla snúða.
Láta hefast í 5-10 mín, setja egg yfir og inn í ofn í 200 gr. þar til snúðarnir eru orðnir fallegir á litinn (15-20 mín)

Svo bara njóta!