Á haustin er alltaf hægt að kaupa dýrindis íslenskar gulrætur og ísskápurinn hjá mér er venjulega fullur af þessum gulu, fallegu rótum því þetta er eitt af mínum uppáhalds grænmetistegundum.

Mér finnst ekkert varið í þessar hollensku gulrætur sem er hægt að kaupa í Bónus allan ársins hring, ég vil hafa mínar ferskar og íslenskar og ekki verra ef þær eru lífrænar.

Gulrætur eru stútfullar af beta-karótíni sem gefur gulrótunum appelsínugula litinn og er einkar hollt fyrir augun okkar. Beta-karótín er líka einkar gott fyrir húðina og er sterkt andoxunarefni. Gulrætur innihalda líka C og B6 vítamín, kalk og trefjar svo eitthvað sé nefnt. Á haustin þegar ég tek mitt árlega gulrótarbrjálæði þá sé ég alltaf mikinn mun á nöglunum á mér.

Þessi uppskrift er mjög einföld og fljótleg og góð leið til að allir í fjölskyldunni borði gulræturnar með bestu lyst! Uppskriftin er meira að segja hráfæðisuppskrift.

  • U.þ.b. 5 rifnar gulrætur
  • Safi úr einni appelsínu
  • Matskeið af góðri ólífuolíu
  • 1/2 teskeið sjávarsalt
  • 1/2 tesekið cumin (ekki kúmen)

Blandið öllu saman í skál og blandið mjög vel. Berið fram með hvaða mat sem er, borðið sem snarl á milli mála eða pakkið í nestisboxin.