Á haustin taka alls kyns ,,samveruklúbbar‘‘ eins og sauma- eða spilaklúbbar aftur til starfa eftir að hafa legið í sumardvala. Þá er við hæfi að bjóða upp á eitthvað ljúffengt með kaffinu eða léttvíninu og er pepperoníbrauðið tilvalið handa gestunum.

Þetta er fyrsti rétturinn sem ég gaf uppskrift að þegar ég byrjaði að skrifa um mat í Gestgjafann, í lok síðustu aldar!

Hann hefur fyrir löngu hlotið fastan sess í afmælum hjá mér og/eða saumaklúbbum og uppskriftin fór eins og eldur í sinu um fleiri saumaklúbba í landinu eftir að hún birtist. Svoleiðis á það einmitt að vera. Þetta er mjög bragðgóður og fljótlegur brauðréttur sem gott er að grípa til í dagsins önn. Uppskriftina er líka að finna í matreiðslubókinni minni Eldað af lífi og sál

  • 1 rúllutertubrauð
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 2 msk. létt majones
  • 100 g pepperoní, skorið í bita
  • 1 rauðlaukur, smátt saxaður
  • 1 dl ólífur, saxaðar
  • ítölsk kryddblanda eða pastakrydd
  • salt og pipar að smekk
  • c.a. 100 g rifinn ostur

Blandið saman sýrðum rjóma, majonesi, pepperoni, rauðlauk og ólífum.  Kryddið og saltið og piprið að smekk. Smyrjið blöndunni yfir rúllutertubrauðið, rúllið því upp og dreifið rifnum osti yfir. Bakið í 20 mínútur við 180 gráður.