Ég er búin að vera gera tilraunir með súpubrauð en þar til nýlega keypti ég alltaf tilbúin brauð í pokum, skellti inn í ofn og borðaði í blindni (ekki alveg með á hreinu hvað ég var að setja ofan í mig).

Ég kynntist indverskum flatkökum á vef CafeSigrun, uppáhaldsuppskriftarvefnum mínum og hef verið að gera allskonar tilraunir með uppskriftina síðan þá. Mér finnst þetta brauð vera einstaklega hentugt og fljótlegt að baka og bera fram með súpunni.

Það sakar heldur ekki að brauðið er gerlaust, inniheldur spelti í staðinn fyrir hveiti, ég set enga olíu í deigið og það er ekki nauðsynlegt að sæta brauðið.

Galdurinn við að gera brauðið er að vera hæfilega kærulaus, en kosturinn við það er að það má bara vera einhvernvegin í útliti, í raun er þetta eins og að gera litlar pizzur, nema þær eru svolítið skakkar.

Hér er mín útgáfa af brauðinu, en ég set allskonar auka hráefni í brauðið eftir því hvernig stuði ég er í. Einu sinni setti ég meira segja Te! í deigið til að fá bragð!

 • 200 ml volgt vatn
 • 1 tsk Vínsteinslyftiduft
 • 250 g Spelt (eða eftir þörfum) – Alveg sama hvort það sé gróft eða fínt
 • 1 tsk Gróft salt – Ég nota Himalaya- eða Maldonsalt og set það oft ofan á brauðið þegar ég er búin að fletja það út í staðinn fyrir í degið.
 • 1 tsk Agave Sýróp (má sleppa)

Svo eru það galdrarnir, en þú getur valið einn galdur eða þá alla, bara eftir því hversu mikla áhættu þú vilt taka.

 • Goji ber
 • Rúsínur
 • Kókos
 • Te
 • Fræ
 • Smátt saxaðar döðlur

Það er einfalt að setja degið saman, en þú hellir volgu vatni í skál, setur galdurinn út í.
Bætir því næst vínsteinslyftiduftinu og saltinu ásamt agave sýrópinu. Mundu samt að þú getur sett saltið líka ofan á brauðið.
Hveitinu bætir þú svo út í skömmtum og blandar saman létt á milli með höndunum.
Deigið er tilbúið þegar þú getur farið að gera litlar pizzur úr því en það má alveg klístrast smá við hendurnar á þér (muna að vera smá kærulaus með þetta allt saman). Gott er að fletja brauðið út á bökunarpappírnum með lófanum og puttunum. Svo er þetta allt saman bakað blæstri á hæðsta hita í ofninum (t.d. 250 gráður) í svona 15 mín, eða þar brauðið er farið að dökkna og harðna.

Ég nota svo pizzuhníf til að skera brauðið niður en það gerir brauðið töff og í hæfilegri stærð til að dífa ofan í súpuna.

Munið bara að uppskriftir virka oft flóknari á pappír en í raunveruleikanum en í fyrsta sinn sem ég bað kallinn um að gera þetta brauð á meðan ég var að elda súpuna þá fjarstýrði ég honum bara með munnlegum fyrirmælum og brauðið heppnaðist svakalega vel. Núna gerir hann alltaf brauðið þegar við erum á hraðferð og hann er algjörlega sjálfstýrður.. thihihih…