Pjattrófurnar ákváðu fyrir skemmstu að lyfta sér aðeins upp og kíkja í mat, drykki og stuð á Grillmarkaðinn nýja sem er í gömlu Kvosinni þar sem áður var Prada (sem brann).

GRILLMARKAÐURINN er alveg meiriháttar flottur. Á tveimur hæðum og innréttingarnar allar svakalega flottar. Það er í raun svolítill „London“ fílíngur þarna þó að allt sé haft sem íslenskar. Það gera líklegast flottu innréttingarnar og lofthæðin ásamt öllum húsbúnaði, ljósum og fleiru. Við fengum flottan bás á neðri hæðinni og komumst allar rosa fínt fyrir. Lítið mál að fara á trúnó og vera aðeins prívat en samt með í fjörinu.

Matseðillinn, sem er auðvitað aðalmálið, er svakalega spennandi en hann einkennist af íslensku hráefni og ferskleika. Hrefna Sætran og félagar sem eiga staðinn leggja áherslu á að skipta beint við bændur landsins og þannig á maður að vita aðeins hvaðan þetta kemur allt.

Við Pjattrófurnar sex ákváðum að velja það sem heitir ‘þinn eigin matseðill’. Þá völdum við nokkra rétti af matseðlinum og deildum þeim með okkur. Þannig náðum við að smakka allt sem okkur fannst girnilegast og samt urðum við sprengsaddar. Maturinn var borin fram á verulega flottum keramik diskum sem hver og einn er með sínu sniði og alltaf í flottu samræmi við matinn.

Meðal þess sem við völdum af matseðli voru ‘Brakandi harðfiskur og smokkfiskur’ (sem við mælum hiiiiiklaust með), ‘Stórir humarhalar frá Þormóði Ramma í Þorlákshöfn’ og ‘Silungur, lax og jöklableikja’. Þetta er aðeins brot af því sem við fengum að borða og það er óhætt að segja að bragðlaukarnir hafi verið kitlaðir. Skemmtilegt var líka eftirréttaskipið sem við fengum í lokin, meiriháttar fallega útfært og auðvitað runnu sætindin vel niður.

Í enda kvöldsins vorum við svo sannarlega pakksaddar og sáttar með snilldar mat, góð vín og skemmtilega þjónustu á fallegum stað sem státar af fjölbreyttum matseðli sem hentar bæði í hádeginu og á kvöldin. Mælum heilshugar með Grillmarkaðnum fyrir alla sæl og fagurkera sem elska að gleðja skilningarvitin.