Bláberjamúffa
Bláberjamúffa

Í kjölfarið af færslunni Bollakökur fagurkerans tók ég þátt í umræðu um hver væri munurinn á múffum (e. muffins) og bollakökum (e. cupcakes) ?

Það er ekki langt síðan ég kallaði múffur og bollakökur sama nafninu og þá yfirleitt möffins en það var ekki fyrr en ég var á einhverju gúgglferðalagi sem ég lærði að það er vissulega munur á þessum kökum.

Upphaflega voru múffur ekki hugsaðar sem kökur heldur “kökubrauð” og voru þær bornar fram með morgunmatnum en hérna áður voru þær ekki mjög sætar á bragðið. Nú á tímum eru þær yfirleitt dísætar og í ameríkunni góðu eru þær oft notaðar sem afsökun að geta fengið sér köku í morgunmat en þar er hægt að kaupa þær nýbakaðar í bakaríum eða á veitingastöðum sem bjóða upp á morgunmat.

Múffur eru oft borðaðar volgar eða nýkomnar úr ofninum og er sagt að það heyrist “þhöööddd” þegar þeim er kastað í vegginn (ég hef ekki prófað það). Þær eru þyngri og þéttari en bollakökur, sérstaklega þegar þær innihalda hnetur og súkkulaðibita en það er einnig algengt að setja ávexti út í þær t.d. bláber.

Múffur eru aldrei skreyttar og er uppskriftin að þeim oft mun auðveldari og fljótlegri en uppskriftin að bollakökum en þar liggur í raun aðalmunurinn á kökunum.

Þegar ég ólst upp voru múffur bakaðar fyrir afmælisveislur, útilegur eða með sunnudagskaffinu og kallaði mamma þær alltaf prinsessukökur en hún setti stundum síríus súkkulaði ofan á og eitt smarties þegar hún vildi gera þær fallegar.

Bollakaka
Bollakaka

En þá er komið að bollakökunum (fyrst við erum nú farnar að ræða það að skreyta kökurnar). Í stuttu máli eru bollakökur í raun múffur í sparifötunum, þær eru skreyttar með smjörkremi og sjást núna oft með fondant skreytingum og eru þær með léttari áferð og er sagt að það heyrist þar af leiðandi “púff” þegar þeim er kastað í vegginn (ég hef ekki heldur prófað að henda bollakökum í vegginn).

Bollakökur innihalda ekki hnetu- eða súkkulaðibita og/eða ávexti og eru þær ekki bornar fram heitar en bollakökur eru hugsaðar sem kaffitímakökur þar sem þær eru mjög sætar á bragðið. Einnig tekur yfirleitt mun lengri tíma að gera bollakökur en múffur þar sem við konurnar getum misst okkur í að skreyta þær og fyllumst við ákveðnum metnaði í að gera kökurnar sem fallegastar og jafnvel setjum þær upp í eitthvað þema.

Hver man ekki eftir atriðinu í Bridemaids þar sem aðalsögupersónan eyddi örugglega tveimur tímum í að baka EINA bollaköku og skreyta áður en hún naut hennar í botn og tók fyrsta bitann?

Annars hefur verið deilt mikið um hvenær múffa verður að bollaköku þar sem margir vilja meina að múffa eigi ekki að vera sæt þar sem hún er hugsuð sem morgunmatur meðan aðrir segja að munurinn liggi í skreytingunni á kökunum og verður í raun hver og ein að meta hvað henni finnst en þegar upp er staðið þá eru bæði múffur og bollakökur obbooosssleggga góðar!