Ég elska það að búa til eitthvað gómsætt handa fjölskyldunni úr afgöngum eða öðru sem til er hverju sinni.

Á dögunum átti ég svolítinn afgang af grilluðum kjúklingalærum og ákvað að flysja af þeim kjötið og gera eitthvað úr þeim.

Oft er gott að eiga pítubrauð og skella í þau því sem til fellur úr ísskápnum en í þetta sinn skyldu búnar til úr þeim litlar pítsur. Því ofnbökuð pítubrauð með ýmis konar áleggi verða mjög ljúffeng og falla flestum vel í geð. Og ef hægt er að láta máltíðina heita pítsa þá aukast enn möguleikarnir á því að maturinn renni ljúflega niður í litla maga.

Ég notaði bæði rautt og grænt pestó, (kláraði einmitt upp úr hálfkláruðum krukkum), tvær tegundir af osti sem til voru (gouda og rifinn parmesan), tómata og heimaræktaðar kryddjurtir sem jafnan er dásamlegt að grípa til, ég notaði basilíku og timjan.

Ofan á brauðið er líka hægt að nota barbeque (grillsósu) eða pítsusósu og svo bara það sem til er hverju sinni. Mér finnst best að kljúfa pítubrauðin í tvennt, þau nýtast betur og verða enn stökkari en ella og það finnst mér svo gott.

Það sem til þarf,  í þessa einföldustu máltíð í heimi, er:

  • pítubrauð
  • pestó, grill- eða pítsusósa
  • niðurskorinn, eldaður kjúklingur eða annað kjöt
  • tómatar
  • ostur, má nota hvaða tegund sem er
  • kryddjurtir, helst ferskar, annars þurrkaðar
  • grófmalaður pipar

Kljúfið pítubrauðin varlega í tvennt og smyrjið með sósunni. Raðið álegginu og ostinum ofan á og kryddið.  Bakið við 210 gráður í 10-12 mínútur. Gott er að hafa ferskt salat með.