Hlaðinn grænmeti, kryddjurtum og ferskri sítrónu minnir þessi pastaréttur okkur á að þrátt fyrir allt og allt er komið vor og sumarið er mjög skammt undan. Rautt og dásamlegt chillíið er ekki bara fallegt heldur líka frískandi og fyllir mann fjöri ekki síst í félagi við vænan slatta af hvítlauk.

Sjóðum okkur pasta, fyllum diskinn af ljúffengu grænmeti, kryddum og öðru góðgæti, sleppum þykkri sósu en dreypum ólífuolíu og sítrónusafa yfir, ásamt hvítlauk og chillí  og hinn fínasti réttur er tilbúinn!  Hollur og hlaðinn vítamínum og öðru sem gefur okkur kraft.

Og það er ótrúlega gaman og hressandi að bera svo litríkan og fallegan rétt á borð þessa dagana! Uppskriftin er fyrir fjóra.

  • 400 g tagliatelle, eða annað gott pasta
  • ½ kúrbítur, afar þunnt sneiddur, langsum með ostaskera
  • 100 g brokkolí, gufusoðið í örskamma stund
  • 4-5 msk. fetaostur
  • handfylli fersk basilíka

Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum á pakka. Látið renna vel af því og setjið í fallega skál. Raðið grænmeti, fetaosti og basilíku ofan á pastað og hellið dressingunni (en þessi er algjörlega ómissandi með réttinum) yfir allt þegar borið fram.

Dressing:

  • 4 msk. ólífuolía
  • safi af ½ sítrónu
  • 3-4 hvítlauksrif, skorin smátt
  • 1 rautt chilli, skorið smátt
  • salt og grófmalaður pipar

Öllu hrært vel saman í lítilli skál.