Börnin tóku því af mikilli gleði um daginn þegar þeim var tilkynnt að við værum öll að fara að borða. „Við líka?“ sögðu þau spennt enda oftar en ekki að fullorðna fólkið fari út á laugardagskvöldi á meðan þau fara í pössun. Áfangastaður okkar var veitingastaðurinn Nítjánda sem er staðsettur í háum turni í Kópavoginum, nánar tiltekið á Smáratorgi.

Þar sem við búum í hjarta miðbæjarins var upplifunin að fara í Kópavoginn og upp lyftu í tuttugu hæða glerturn dálítið eins og að vera komin til útlanda: á fínan veitingastað eða hótel í fjarlægri stórborg.

Öll hönnun veitingastaðarins er hin smekklegasta, með nútímalegum naumhyggjulegum húsgögnum, hlýrri og kósý litapallettu og fallegri birtu. Útsýnið yfir ljós borgarinnar út um stóra gluggana var skemmtilega heillandi. Á Níjándu er vel tekið á móti bæði fullorðnum sem börnum og innandyra var aragrúi af fólki sem sat að snæðingi og naut stemningarinnar og ljúfrar djasstónlistar sem ómaði um salinn.

Á kvöldin býður Nítjánda upp á veglegt matarhlaðborð með spennandi og exótískum blæ sem hitti beint í mark. Meðal forrétta var dásamlegt sushi og sashimi ásamt allskyns girnilegum sjávarréttum, hráskinkum og öðru lostæti úr hinum ýmsu heimshornum, meðal annars ilmandi sjávarréttasúpa og asísk núðlusúpa.

Á aðalréttaborðinu var sannkallað heimshornaflakk í gangi þar sem hægt var að gæða sér öllu frá dýrindis nautasteik með bearnaise upp í margskonar spennandi indverska, kínverska og pakistanska rétti ásamt heitu naan brauði og frískandi „raita“ jógúrtsósu. Hin snjalla Yesmin Olson hefur oft verið með námskeið í indverskri matargerð á Nítjándu og mig grunar að margir réttir hér á boðstólum séu einmitt upprunnir úr smiðju hennar.

Börn hafa úr ýmsu að velja á Nítjándu. Heilt hlaðborð er sett upp sérstaklega með þarfir barna í huga þar sem réttir eru eldaðir upp úr hinni sívinsælu Matreiðslubók minni og Mikka og þar gaf að líta pylsur, grænmeti, mexíkanskar pönnukökur og annað krakkagóðgæti í hollari kantinum. Ég myndi samt hiklaust hvetja börn til að prufa líka rétti á fullorðinshlaðborðinu þvi að það er einmitt alveg frábær upplifun fyrir smáfólk að fá að velja sér rétti frá hinum ýmsu heimsins hornum og smakka. Það rann ýmislegt ljúflega niður hjá mínu smáfólki eins og súpurnar, indversku réttirnar og nautasteikin! Ekki má svo gleyma einu ævintýralegasta eftirréttahlaðborði sem ég hef nokkurn tímann augum litið en þar var meðal annars hægt að bragða á allskyns súkkulaði „mousse“ framreiddar í silfurskeiðum, „créme brulée“ og „créme caramel“  og „tarte au citron“ í litlum glerglösum og svo ostatertur og ekta franskar súkkulaðikökur ásamt dýrindis exótískum ávöxtum. Óhætt er að fullyrða að við stóðum öll á blístri eftir þessar lystisemdir.

Ekki má gleyma því að nefna að Nítjánda sérhæfir sig í að láta fjölskyldum líða vel og njóta kvöldstundarinnar til hins ýtrasta. Til að ýta undir þægindin er á boðstólum sérstakt Disney herbergi fyrir yngstu gestina þar sem þau geta leikið sér, teiknað og lesið eða horft á teiknimyndir þegar þau eru orðin leið á langri setu við borðið. Á þennan hátt verður enginn pirraður og pabbar og mömmur fá að eiga notalega stund yfir kaffi og rauðvínsglasi.

Mér skilst að bröns hlaðborðið á Nítjándu sé líka gífurlega vinsælt meðal fjölskyldufólks og hlakka til að prófa það einhverja vetrarhelgina, því veitingastaðurinn sló svo sannarlega í gegn hjá okkur og stórir sem smáir fengu að njóta sín í botn.