Salat er frábær máltíð í sjálfu sér, létt og fersk, holl og góð.  Á góðviðrisdegi eins og í dag er sumarlegt salat með spínati eða brakandi fersku káli og fullt af ávöxtum, sérlega freistandi. Og þá skellir maður sér auðvitað bara með salatskálina útí garð eða svalir og nýtur blíðunnar.

Uppskriftina er að finna í matreiðslubókinni minni Eldað af lífi og sál, og ætti svona falleg mynd að minnsta kosti að gefa ykkur hugmyndir að salatgerð, en fallegir litir í salatinu ýta undir góða skapið – gefa lífinu lit!

 • 300 g spínat, eða annað grænt salat
 • 100-200 g eldaður kjúklingur, skorinn í bita
 • 1 rauðlaukur, sneiddur þunnt
 • 10-12 jarðarber
 • 15-20 bláber
 • 1 mangó, skrælt og niðurskorið
 • handfylli salthnetur

Fyllið salatskál af spínati (má nota annað grænt salat), raðið kjúklingabitum og rauðlauk ofan á.  Bætið síðan berjum og mangó ofan á og stráið salthnetum yfir allt. Dreifið salatdressingunni yfir um leið og salatið er borið fram eða berið hana fram með salatinu í sérstakri skál.

Salatdressing:

 • 2 msk. fersk mynta
 • 3 msk. ólífuolía
 • 2 msk. rauðvínsedik
 • 1-2 hvítlauksrif, marið
 • salt og grófmalaður pipar, að smekk

Allt hrært vel saman.