Bella hefur komist að því að kannski eru ástarsambönd og hjónaband ekki fyrir alla.

Þrátt fyrir að virðist í eðli mannsins að vilja eiga maka, ganga í gegnum lífið með annarri manneskju, eðla sig og ala upp börn þá eru sumir bara arfalélegir þegar kemur að ástarsamböndum.

Algengt er að fólk byrji í sambandi á unglingsárum og fari úr einu sambandi í annað langt fram á fullorðinsár og eiga jafnvel börn með nokkrum mismunandi aðilum með tilheyrandi flækjum. Þrátt fyrir ítrekuð vonbrigði og ástarsorgir gefst fólk samt ekki upp og heldur leitinni að “sálufélaganum” áfram.

  • Er það eðlilegt?
  • Er virkilega svona slæmt að vera ein/n?
  • Er þetta eðli okkar eða þrýstingur frá samfélaginu?

Bella dagsins er á fertugsaldri og hefur verið meira eða minna á föstu síðan hún var 16 ára, lengsta tímabilið á lausu voru níu mánuðir um tvítugt!!

Bella er að flestu leiti heilbrigð, heilsteypt og ljúf manneskja sem stendur sig vel í námi og vinnu, er góð móðir og traustur vinur en allt önnur manneskja þegar kemur að ástarmálum. Þá breytist hún í villidýr, er erfið, heimtufrek, tortryggin og afbrýðissöm, viðkvæm fyrir hvers konar gagnrýni en þó alltaf að gagnrýna.

Henni finnst hún eiga betur skilið en það sem hún fær og er afar sjaldan fullkomlega ánægð.  Þegar makinn fær nóg af henni og vill slíta sambandinu þá gerir hún allt til að bjarga því, hagar sér eins og hún gerði þegar hann varð hrifinn, verður ástrík, hlý og hugulsöm, dekrar hann og reynir á allan hátt að vera eins og hún heldur að hann vilji að hún sé -en það er heldur ekki eðlilegt og endist ekki til lengdar.

Þegar harðnar í ári og sambönd verða meiri erfiði en ánægja þá lætur hún sig dreyma um að vera einhleyp.

Bella dáist að sjálfstæðum einhleypum konum sem virðast blómstra og standa sig vel í starfi, barnauppeldi og ná að vera þær sjálfar.

MEÐ RÁÐ Á HVERJUM FINGRI

Ráðgjafar eru duglegir að gefa fólki í samböndum heilræði. Þau algengustu eru ” samband er vinna, það þarf að vinna að því að viðhalda ástinni!” og aðrir segja:

“Þegar þú ert með réttum aðila þá er það áreynslulaust og gott og þú veist það þegar þú finnur hann”.

Þetta eru fullkomnar andstæður og ekki nema von að maður viti ekki hvaða ráðum á að fylgja. Svo segja aðrir að það eigi að fylgja hjartanu en hjarta Bellu hlýtur þá að vera eitthvað gallað því það kemur henni ítrekað í vandræði.

Reynsla Bellu dagsins er sú að sambönd eru erfið og hún er einfaldlega léleg í þeim. Ef hún tæki ástarpróf þá fengi hún falleinkunn og kanski væri bara best fyrir hana að vera einhleyp? Hver segir að ástarsambönd séu fyrir alla? Er ekki betra að vera einn heldur en að vera berjast við að viðhalda erfiðu sambandi?

Svo er líka spurning hvort einhleypa, sterka, sjálfstæða konan sem ég ímynda mér að Jóna og Sigga séu horfi öfundaraugum á Bellu og vilja ekkert frekar en að sofna í örmum manns sem elskar þær.

Kannski eigum við öll að vera ánægð með það sem við höfum og gera það besta úr því, grasið er ekki alltaf grænna hinum megin og ef við erum að hugsa um að slíta sambandi þá verðum við að muna að við sitjum alltaf uppi með okkur sjálf!

[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=4m1EFMoRFvY[/youtube]