Lax er í miklu uppáhaldi hjá mér og ef ég þyrfti einungis að elda fyrir sjálfa mig væri ég til í að borða hann nánast á hverjum degi.

Lax er afbragðs hollustufæða og í flokki með svokölluðu ofurfæði hvað heilnæmi og hollustu varðar.

Samkvæmt nýjustu rannsóknum eru omega-3 fitusýrurnar, sem nóg er af í laxi, ekki einungis bráðhollar fyrir líkamann heldur líka andlega heilsu og geðprýði.

Sýnt hefur verið fram á að skort á omega-3 megi tengja við þunglyndi hjá börnum og fullorðnum. Sem hvetur okkur öll til að neyta enn meiri fisks en kannski margir gera. Það er hægt að nota lax á óteljandi máta í matargerðinni, grillaðan, bakaðan, soðinn, hráan, heitan eða kaldan, alltaf er hann ljúffengur en mikilvægt er þó að elda hann ekki  of mikið.

Lax og lárperur (avokado) eiga mjög vel saman en lárperur eru líka sannkölluð hollustufæða. Lárpera er rík af B, K og og E-vítamíni, talin veita vörn gegn hjartasjúkdómum og krabbameini og í henni er ríkulegt magn af hollri fitu.

Hér er tillaga að einföldum rétti þar sem dúettinn lax og lárpera koma saman í hollri og gómsætri máltíð. Laxinn hefur verið léttkryddaður, með salti, grófmöluðum pipar og basilíku (ferskri eða þurrkaðri) og eldaður í nokkrar mínútur, grillaður, bakaður eða steiktur. En lárperusósan er aðalmeðlætið og hér er uppskrift að henni. Uppskriftin er miðuð við tvo skammta.

  • 1 lárpera, vel þroskuð
  • 1 tsk. pestó
  • 2 msk. fetaostur
  • safi og börkur af ½ sítrónu
  • salt og graslaukur (ferskur eða þurrkaður)

Maukið allt vel saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota.

Gott er að bera laxinn fram með heilhveitispaghettíi og grænu salati. Á myndinni hefur rétturinn verið skreyttur með rósapipar og sítrónusneið.