Kínóagrjón (quinoa) eru í tísku í matargerð um þessar mundir en þau er hægt að nota á margvíslegan hátt. Ýmis konar grænmeti, ferskar kryddjurtir, hnetur og þurrkaðir ávextir eiga sérlega vel við grjónin góðu. Þau eru sjálf mjög mild á bragðið með örlitlum hnetukeim þó.

Kínóagrjónin sem eru ,,heitasta kornið‘‘ eins og hérna kemur fram, eru afar holl og góður kostur fyrir þá sem vilja auka grófmetið í fæðu sinni. Ljúffengt er að nota þau út í alls kyns salöt, sem meðlæti með t.d. kjúklingi eða fiski eða búa til úr þeim léttan, hollan málsverð eða millibita.

Hér kemur tillaga að matreiðslu en ég undirstrika að möguleikarnir eru óteljandi og það er um að gera að gefa hugmyndafluginu lausan tauminn.

 • 3 dl kínóagrjón
 • 6 dl grænmetissoð
 • 1 laukur, smátt skorinn
 • ½ græn paprika, smátt skorin
 • handfylli fersk steinselja, grófsöxuð
 • handfylli pistasíuhnetur
 • handfylli þurrkaðar aprikósur, smátt skornar
 • 1 tsk. ólífuolía til steikingar, ef vill

Dressing:

 • 2-3 msk. ólífuolía
 • safi af 1 sítrónu
 • 1 hvítlauksrif, marið
 • 1 tsk. fljótandi hunang
 • salt og grófmalaður pipar

Öllu hrært vel saman í lítilli skál og dressingin borin fram með salatinu eða dreypt yfir rétt áður en það er borið fram.

Skellið grjónunum út í sjóðandi grænmetissoðið og látið malla við vægan hita í um 15 mínútur. Látið lauk og papriku gyllast í ólífuolíu á pönnu við meðalhita. (Það er ekki síður gómsætt að sleppa því að mýkja laukinn og paprikuna og setja hvorutveggja einfaldlega hrátt saman við grjónin.) Að suðu lokinni eiga grjónin að hafa tekið í sig mest allan vökvann en annars skulið þið láta renna vel af þeim. Hellið grjónunum í skál og hrærið upp í þeim með gafli. Bætið papriku, lauk, steinselju, hnetum og aprikósum saman við og blandið vel.

Grjónin eru jafn ljúffeng heit eða köld. Reyndar ber ég þau oftast fram við stofuhita.