Mynd með auglýsinguMávur er enginn eftirlætisfugl.. hann sveimar um loftin, húkir yfir fiskiskipum í leit að æti, étur fallegu andarungana í tjörninni á vorin og er mörgum til ama.

Það er merkilegt að þessi vargur skuli þrátt fyrir óforbetranlega hegðun sína hafa komist á þann stall að prýða fín matarborð víða um heim og þá í formi postilínsstells með ámáluðum mávamyndum. Slík stell þóttu algert raritet hér í eina tíð – voru aðeins notuð við fínustu tækifæri á betri heimilum.

Mávastellið er klassísk hönnun, sívinsælt og alltaf fallegt. Sífellt fleira ungt fólk hefur kveikt á fegurðargildi mávastellsins og notar það óspart hversdags – ekki bara spari eins og gert var hér í eina tíð. Þetta einstaklega fallega stell sem er fagurblátt á litinn og minnir á gamla tíma, passar einmitt svo vel við nútímalega hönnun. Sú hönnun er oft köld og stílhrein og því er gaman að brjóta hana upp með einhverju gömlu og hlýju.

Mávastell hafa alltaf notið mikilla vinsælda og virðingar hérlendis. Það hefur einnig verið vinsælt erlendis.  Hið hefðbundna mávastell er fyrir 12 manns, matar- og kaffistell með sósuskálum, súpuskálum, sultuskálum og matarílátum af öllum stærðum, kaffikönnu, sykurkari og rjómakönnu. Eins fylgja því kertastjakar, blómavasar, konfektskálar og jafnvel litlar skeljar með mávamynstri sem eru ætlaðar fyrir steina úr ávöxtum eða ösku. Þetta eru skemmtilegir hlutir sem fylgja ekki þeim matarstellum sem eru framleidd í dag og þetta gefur mávastellinu að sjálfsögðu meiri sjarma.

Mávastellið er enn í framleiðslu og það má m.a. kaupa í versluninni Kúnígúnd. Einnig er hægt að finna það á fornsölum í Reykjavík.