Þetta byrjaði allt óheppilega. Einmitt daginn sem ég ákvað að flytja úr litla herberginu sem ég hafði leigt undanfarin ár í Parísarborg og fara heim til Íslands.

sb10064096b-001

Þá… fyrir algeran klaufaskap, slengdist á mig gríðarlega þungur fataskápur, rétt eins og 200 kg karlmaður með ýstru. BOMM!!

Lánið í óláninu var að við duttum ofan á rúmið mitt. Það var nú eitthvað sem daman hafði aldrei áður reynt… að sænga hjá skáp! Það er víst nokkuð algengt að Parísarbúar lendi í svona skápum, láti jafnvel lífið í viðureigninni! Svipað því og við Íslendingar keyrum út í ár og læki og höfum verra af. Í þessari borg er þröngt búið, jafnvel í 8fm þar sem rúm og skápur liggja hvort ofan í öðru og margoft hafa skápar smellt sér á sofandi fólk.

Ég var heppin, komst lifandi frá þessu en bólfarirnar höfðu afdrifaríkar afleiðingar síðar meir. Í langan tíma var bakið aumt og stundum hélst það alls ekki uppi. Þá var ekkert að gera nema að leggjast í gólfið þar sem staðið var og slaka á. Alveg sama hvort það var stofan heima eða fínn veitingastaður í fylgd með flottum herra – bakið var ótemja! Og ég náttúrulega furðufugl, liggjandi á bakinu…

Vandamálið fléttast við lífið

Heima á Íslandi tók við uppbygging baksins sem nú hafði þroskað sitt eigið sjálf. Það grenjaði og gargaði, pískaði í rúmið eða í sprengitöflur, djöfullinn sjálfur. Það sem gerði útslagið með að leitað var eftir hjálp voru þó ekki þessi óþægindi heldur sú leiða staðreynd að daman gat ómögulega gengið á háum hælum! Því var skundað í sjúkraþjálfun og æft með fáeinum ellismellum (50+) sem einnig glímdu við þess háttar. Það var gott start en tilhugsunin um háa hæla hélt þessu miklu frekar gangandi heldur en ánægjan…

Svo ég skráði mig til Guðna Gunnarssonar í Rope Yoga Setrinu. Guðni hafði meðal annars þjálfað Súperman og hlaut eðlilega að geta lækka rostann í bakræksninu! Hjá Guðna lærði ég nokkuð merkilegt: Að elska bakið mitt og líta á hjallann sem tækifæri til að komast í form, enda eina leiðin til að hafa betur í baráttunni. Það hýrnaði brúnin á Parísardömunni, sem eins og Pollýanna sá nú kosti þess að hafa sængað hjá skáp! Nú kæmist anti-sportistinn í form með rope-yoga.

OG ÁFRAM…

En það var ekki nóg.. til að bæta líkamsstöðuna enn frekar skráði ég mig í ballett í Klassíska Listdansskólanum og varð umsvifalaust elsta byrjunar ballerínan frá upphafi skólahalds þar á bæ og bara nokkuð stolt af titlinum.

Vetrarlangt, þrisvar í viku hef ég eytt kvöldunum eins og undurfagur fíll á sviði, dansandi við fallegustu klassísku tónlist sem til er. Smátt og smátt hefst þetta líka. Bakið er hætt að skrækja enda er líkamsstaðan tignarlegri auk þess sem vöðvarnir hafa styrkst og lengst. Auðvitað hélt ég því að málið væri í höfn -nú tæku við dagar hælaskótaus og skvísustæla… en mér skjátlaðist. Vandamálið með góða kennara er að þeir pína nemandann lengra. Og ballettkennarinn vildi að að bak- og magavöðvar yrðu sterkir svo daman drattaðist í ræktina án þess þó að hafa mikinn metnað.

Empire state of mind

Það var einmitt á hlaupabrettinu í ræktinni sem þessi saga datt í kollinn á mér. Eftir lóðalyftingar, 300 magaæfingar og 150 bakfettur hljóp ég þarna hömlulaust lokasprettinn. Rétt eins og við endamarkið biði mín freyðandi kampavínsglas með rauðu jarðaberi!

Á þeirri stundu snertu skórnir tæpast brettið þar sem ég sveif áfram í því sem líktist helst extacy-hlaupi lífs míns. Yfir mig helltist gífurlegt mont yfir því að hafa loks sigrað antisportistann og ótemjuna sem bjó í bakinu. Skyndilega var ég ekki á þessum skröltandi brettisgarmi, heldur nákvæmlega á toppi Empire State og svo fljúgandi yfir allri New York borg. Undir ómaði lagið Empire State of Mind og auðvitað tileinkað okkur, mér og bakinu.

73170652

Fyrir þá sem vilja reyna þetta heima hjá sér þarf einn franskættaðan fataskáp sem næstum svæfir þig svefninum langa svo hægt sé að vakna og nýta tækifærin sem felast í hundleiðinlegum aðstæðum.