Mér finnst þjóðin okkar orðin allt of neikvæð þessa dagana og ég held að það geti því miður komið niður á andlegri og líkamlegri heilsu okkar.

86087429Neikvæðni er líka hættuleg af því hún getur verið smitandi og fyrir þá sem er alltaf að hlusta á niðudrepandi tal getur orðið erfitt að vera hress.

Icesave, skuldir, svínaflensa, verðbólga, skattahækkanir, verðhækkanir, gjaldþrot, jarðskjálftar: Þetta virðist vera það eina sem við heyrum þessa dagana en eitthvað verðum við að gera til að halda heilsu og geta litið björtum augum fram á veginn.

Ég fann margar áhugaverðar greinar um jákvæðni á netinu,  á vef Landlæknisembættisins var t.d. grein eftir Salvöru Bjarnadóttur geðhjúkrunarfræðing sem fjallar um jákvæðni á skýran hátt.

Þar segir:

Að hugsa jákvætt

Þeir sem eru bjartsýnir og raunsæir að eðlisfari eiga auðveldara með að setja sér raunhæf markmið. Þeir hafa trú á eigin styrk, eru meðvitaðir um eigin tilfinningar, þora að taka ákvarðanir og hafa hugrekki til að standa með sjálfum sér. Þeir spyrja spurninga ef eitthvað er óljóst og þeir horfa á mistök sem tilraun, nýta þau til framþróunar eða að sjá í þeim nýtt tækifæri. Þeir eru meðvitaðir um eigin framkomu, hafa útgeislun, leggja sig fram við að vera í góðum tengslum við sína nánustu, treysta öðrum og njóta þess að deila velgengni sinni. Oftar en ekki geta þeir sett sig í spor annarra, og síðast en ekki síst virðast þeir eiga auðvelt með að biðjast fyrirgefningar ef þeir gera á hlut annarra.

Ógn í hverju horni

En svo eru það hinir sem virðast ávallt geta gert allt að engu. Þeir sjá oftar ógn í hverju horni, æða áfram án þess að spyrja, kenna öðrum um og er oft ásakandi í garð þeirra sem næst þeim standa. Dómharka þeirra, yfirgangur og niðrandi orðaval gerir það að verkum að þeir einangrast. Þeir hafa sín markmið, en þau eru ómarkviss og loðin og þeir eiga erfitt með að biðja um aðstoð fyrr en allt er komið í þrot. Þessir einstaklingar sjá oft mistök sín sem eitthvað óyfirstíganlegt, þrjóskast við að viðurkenna vanmátt sinn, þora illa að takast á við mótbyr, draga sig í hlé, fyllast jafnvel öfund út í þann sem hefur það betra eða flýja á náðir Bakkusar.

Í Heilsubankanum fann ég svo þessi einföldu ráð til að temja sér jákvætt viðhorf:
  1. Í fyrsta lagi er mikilvægt að koma í veg fyrir að fata manns tæmist með því að spyrja sjálfan sig hvort maður sé að fylla eða tæma fötu annarra. Ertu að gera stöðugt grín að einhverjum? Bendir þú fólki aðeins á það sem það gerir rangt?
  2. Í öðru lagi er gott að beina orkunni og athyglinni að því sem er jákvætt í stað þess að einblína á hið neikvæða. Maður þarf að segja að minnsta kosti fimm jákvæða hluti við fólk áður en maður getur sagt eitthvað neikvætt. Sálfræðingurinn John Gottman komst að því í merkilegri rannsókn að hjónabönd endast ekki ef hlutföllin eru ekki betri en eitt jákvætt á móti einu neikvæðu.
  3. Í þriðja lagi er mikilvægt að eignast bestu vini þar sem þau sambönd leiða til aukinnar ánægju. Segðu fólki í kringum þig að þér þyki vænt um það og hvers vegna. Veittu öðrum stuðning og hvatningu og vertu sá sem það getur leitað til.
  4. Í fjórða lagi er um að gera að gefa óvæntar gjafir, sem geta verið hlutir, traust, virðing, ábyrgð eða hrós. Það að fá óvænta gjöf fyllir fötuna óvæntri orku.
  5. Síðast en ekki síst er mikilvægt að snúa gullnu reglunni við: Að koma fram við aðra eins og þeir vilja að þú komir fram við þá.

Jákvæðar hugsanir geta orðið að venju alveg eins og neikvæðar hugsanir. Þar sem líf okkar allra tvinnast saman er mikilvægt að einblína á hið jákvæða og njóta samskiptanna við annað fólk. Jákvæðni veitir almenna gleði og hamingju. Ásamt því að verja líkama okkar fyrir ágangi flensupesta. Það er svo sannarlega betri kostur að lifa lífinu hamingjusamur og lifandi í gleði og jákvæðni.

Í dag ætla ég að reyna loka eyrunum fyrir neikvæðri umræðu, syngja hástöfum í bílnum með skemmtilegri tónlist frekar en að hlusta á þjóðarsálina, leika við börnin sem eru ómenguð af fréttum sjónvarps og knúsa og hrósa þeim sem ég umgengst, þá getur varla verið að ég eigi slæman dag!